EKKI SÉNS AÐ GERA ÖLLUM TIL HÆFIS

  Ég opnaði árið 1990 skemmtistaðinn Ömmu Lú, nefndi hann í höfuðið á henni ömmu minni sem ég var alinn upp hjá. Hún hét Guðrún Jakobína Lovísa Ágústsdóttir Fjeldsted en í daglegu tali allta kölluð Lovísa og þannig kom þetta nafn til, Amma Lú, því það voru fleiri ömmur. Amma Lú var heiðvirð kona sem ég heyrði aldrei nokkurn tíma blóta. Það sem komst næst því að vera blótsyrði var orðið “ansvoðans”.

  Jæja, staðurinn var flottur og ég stoltur af að hafa opnað hann. Eitt var það sem við vorum í vanda með var tónlistin. Það kom nefnilega í ljós að þeir sem fíluðu salsa voru ekki hrifnir af Meat Loaf eða öðru skallapoppi. Þeir sem fíluðu rokkið voru ekki hrifnir af hiphop og þeir sem fíluðu rapp vildu bara rapp og svo kom gamaldags diskó

  Það sem ég er að segja er að þegar við vorum að spila sitthvora syrpuna þá voru hinir óánægðir og svo framvegis. Þannig að smámsaman var þar fólk sem fílaði sömu músík og hinir fóru annað.

  Það kannast sjálfsagt margir við dæmisögur Nasreddin. Ég man að þær birtust í Morgunblaðinu þegar ég var strákur öðru hvoru meginn við 1960. Þær voru svona kannski eitthvað í ætt við dæmisögur Esóps. Svona blákaldur og stundum nöturlegur sannleikur um eðli mannskeppnunnar. Þessar sögur í Mogganum voru að því er mig minnir myndskreyttar. Svona soldið eins of Ferdinand gamli.

  Nema hvað, ég man vel eftir einni af þessum sögum sem var á þá leið að Nasreddin og sonur hans voru á leið yfir fjall. Þeir voru með asna með sér. Þegar þeir höfðu gengið góðan spöl mættu þeir hópi fólks sem hafði á orði: Hvað er að sjá, þarna labba þeir báðir og hvorugur ríður asnanum. Því lætur hann ekki strákinn upp á asnann. Það gerði Nasreddin og héldu þeir áfram ferðinni. Þá mættu þeir öðrum hóp fólks sem hafði á orði: Þarna lætur hann strákinn sprellfjörugann ríða asnanum og gengur sjálfur. Því ríður hann ekki asnanum og lætur strákinn ganga. Þá skiptu þeir um hlutverk, strákurinn gekk og Nasreddin reið asnanum. Aftur mættu þeir hóp fólks sem sagði: Því ríður hann asnanum og lætur vesalings strákinn ganga. Því ríða þeir ekki báðir ásnanum? Hann er alveg nógu sterkur til að bera tvo. Það gerðu þeir og nú riðu báðir asnanum. Enn og aftur mættu þeir hópi fólks. Í þetta sinn sagði það: Að sjá hvernig þeir fara með vesalings dýrið. Tveir karlmenn að ríða einum asna. Þvílík meðferð á dýrinu. Nú var Nasreddin nóg boðið og sagði þessu fleygu orð: “Það er útilokað að gera öllum til hæfis.”

  Hafandi sagt þetta þá vitna ég í þá staðreynd að það er ekki til nein ein aðferð sem virkar örugglega í samskiptum við fólk eða í viðskiptum almennt. En ein er sú aðferð sem er dæmd til að virka ekki og það er að gera öllum til hæfis.

  Það er nefnilega ekki hægt að borða kökuna og eiga hana líka. Þannig eru stjórnmálin.

  Auglýsing