EKKERT HELVÍTIS LÝÐRÆÐI – RÁÐHERRAR SKRIFA BARA UNDIR

  Lakagígar / mynd js.

  Jón Sigurgeirsson lögfræðingur sendir myndskeyti:

  Jón Sigurgeirsson

  Lagasetning á að vera vönduð og fyrir opnum tjöldum. Almenningi er veittur greiður aðgangur að öllu ferlinu, sérstaklega eftir að samráðsgátt stjórnvalda var sett á fót. Það er ekki hægt að segja það sama um stjórnvaldreglur sem verða til í skúmaskotum sérfræðingaveldisins. Samkvæmt stjórnarskrá er löggjafarvaldið hjá Alþingi – ekki stjórnvöldum. Eftir sem áður er það viðtekin venja að fela stjórnvöldum nánari útfærslu á lögum. Þær reglur eiga eðli málsins samkvæmt aðeins að fylla út og verða að vera í anda laganna. Sérfræðingaveldinu þykir þetta ekki nóg og tekur sér vald til að koma að nýjum sjónarmiðum sem ekki finnast í lögum eða eru jafnvel andstæð anda þeirra. Ofurvald menntunarinnar gerir það að verkum að ráðherra skrifar bara undir. Undir slíkt ólýðræðisleg batterí átti að setja 40% landsins með stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem sérfræðingaveldið hefur farið gegn lögum.

  Margir lögfræðingar hafa í gegnum árin bent á það sem þeir telja brot á stjórnarskrá en hlutirnir hafa aðeins farið á verri veg. Þægilegt er að fara framhjá flækjustiginu sem lagasetning hefur í för með sér. Engin umræða – ekkert helvítis lýðræði.

  Það sem verra er að í þessum málum er Umboðsmaður Alþingis nánast gagnslaus. Í lögum um hann er tekið fram að hann taki aðeins að sér mál sem hafa verið kærð til „æðra stjórnvalds“. Það er hins vegar ekkert æðra stjórnvald yfir ráðherra. Almenningur getur ekki staðið í dómsmálum vegna þess að hann telur á sér brotið með því að meina honum að fara um þekktar þjóðleiðir. Hann kyngir bara með kökk í hálsi algjörlega varnarlaus.

  Auglýsing