EFTIR HÖFÐINU DANSA LIMIRNIR

    Tómas Lárusson fótgönguliði í Gráa hernum skrifar:

    Umræðan á kaffistofuni snýst  um hrun sjálfstæðismanna í skoðanakönnunum. Menn eru sammála um að líklega sé bankasölumálið kornið sem fyllir mælirinn. Aðdragandinn er þó lengri eða allt frá loforðabréfi formanns Sjálfstæðisflokksins til kjósenda fyrir Alþingiskosningar 2013. Eldri borgarar, þ.e. tryggustu kjósendur flokksins hafa mest séð vinnubrögð hagsmunagæslu, loforða svik og pretti síðan þá.

    Fyrir kosningar í haust skrifað formaðurinn t.d. pistil í Morgunblaðið undir fyrirsögninni „Við lækkum skatta”. Þar tók hann sérstaklega fram að frítekjumörk vegna fjármagnstekna kæmu sér einkanlega vel fyrir eldri borgara. 

    Við skoðun kemur í ljós að almennt frítekjumark er óvirkt fyrir þá sem eru ellilífeyrisþegar hjá Tryggingastofnun og með tekjur frá atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Sá hópur er rúmlega þrír af hverjum fjórum eldri borgurum landsins. Það er ekki aðeins að tekið er frá þeim frítekjumark atvinnutekna með því að reikna lífeyrissjóðstekjur þeirra með frítekjumarki fjármagnstekna, heldur eru ellilaunin lækkuð til viðbótar með 45% skerðingu ellilífeyris af atvinnutengdum lífeyri. Ellilífeyrisþegar hjá Tryggingastofnun sem fá greiðslur yfir 25 þúsund krónum á mánuði úr lífeyrissjóðum njóta einskis frítekjumarks af fjármagnstekjum sínum. Að tala um velferð eldri borgara í þessu samhengi er gapuxatal.

    Kjósendur í komandi bæjar- og borgarstjórnarkosningum gera ráð fyrir að eftir höfðinu dansi limirnir. Ef forystan iðkar loforðasvik og pretti er viðbúið að undirtillur geri eins.

    Auglýsing