DÝRASTA SÍMTAL ÁRSINS – EGGERT SNÝR AFTUR

    "Eggert Þór er öflugur leiðtogi með mikla reynslu, hefur metnað fyrir umhverfismálum og hefur átt farsælan feril sem stjórnandi í vaxtar- og rekstrarfyrirtækjum," segir Halldór Ólafur Halldórsson stjórnarformaður Landeldis."

    “Ég er þakklátur fyrir tækifærið til að taka þátt í uppbyggingu á fiskeldi á landi,” segir Eggert Þór Kristófersson fyrrum forstjóri Festis sem ráðinn hefur verið forstjóri Landeldis hf.

    Eggert hrökklaðist frá Festi eftir símtal við Vítalíu Lazarevu sem ásakað hafði stjórnarformann Festis og félaga hans um kynferðislegt ofbeldi í pottaferð við sumarhús. Eggert hringdi í Vítalíu til að heyra hennar hlið málsins og lýsti Vítalía símtalinu sem því besta sem hent hefði hana í málinu öllu. Dýrasta símtal ársins bergmálaði hinsvegar víða í viðskiptalífinu og Eggert fauk úr Festi.

    Laxeldismarkaðurinn telur um 3 milljónir tonna og undir 1% er alið á landi. Allar helstu spár styðja að laxaframleiðsla nær ekki að halda í við mikla eftirspurn eftir laxi og því er um einstakt tækifæri að ræða fyrir Landeldi að byggja upp öfluga starfsemi sem mun verða mikilvæg útflutningsgrein á komandi áratug. Landeldi hf. var stofnað árið 2017. Sveitarfélagið Ölfus hefur stutt við félagið frá upphafi og aðstæður í Ölfusi er einkar hagstæðar fyrir laxeldi á landi. Félagið stefnir á að vaxa jafnt og þétt í 33.500 tonna ársframleiðslu árið 2028. Félagið rekur seiðaeldisstöð í Hveragerði og áframeldisstöð við Þorlákshöfn á samtals yfir 33 ha svæði og hefur í dag öll tilskilin leyfi til að ala lax á landi. Félagið hefur borað eftir um 2.000 l/sek af jarðsjó og tekið fjóra sjótanka í notkun og verða þeir orðnir 14 talsins um næstu áramót. Lífmassi um næstu áramót er áætlaður um 500 tonn. Félagið er nú með um 450 þúsund laxa í áframeldi og um 1,6 milljón í seiðaeldi. Um 25 manns vinna hjá félaginu og um 50 starfsmenn hjá undirverktökum. Landeldi leggur metnað sinn í nýtingu úrgangs til áburðarframleiðslu og hefur þess efnis nýlega skrifað undir viljayfirlýsingu við Bændasamtök Íslands og kaupsamning á tæknibúnaði frá Blue Ocean Technology. Stoðir hf., Framherji ehf. og Fylla ehf. eru stærstu hluthafar Landeldis hf. ásamt frumkvöðlum.

    Auglýsing