DÚFNAVEISLA Í LAUGARDAL

    Stærsta skrautdúfusýning sem haldin hefur verið hér á landi fer fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum laugardaginn 18. nóvember. Sýningin er samstarfsverkefni áhugafólks um ræktun skrautdúfna, Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og Dýraþjónustu Reykjavíkur. Margar skrautdúfur hafa verið fluttar til landsins undanfarin ár og hafa sumar tegundirnar aldrei verið til hér á landi áður.

    Fjölmargir ræktendur munu sýna sína bestu fugla en um er að ræða rúmlega 100 fugla af minnst 20 tegundum í fjölmörgum litum. Þá munu tveir safnarar sýna muni sem tengjast dúfnasportinu. Ljósmyndir sem tengjast skrautdúfnarækt verða sýndar á risaskjá auk mynda af enn stærri sýningum erlendis.

    Sýningin verður frá klukkan 10 til 16 í skálanum við veitingahúsið en garðurinn opinn frá klukkan 10 til 17. Hefðbundinn aðgangseyrir í garðinn gildir á sýninguna.

    Auglýsing