DAUÐANS ALVARA – PLÍS!

  Í síðustu viku fékk ég póst frá Krabbameinsfélaginu sem í senn var þakklæti fyrir að vera einn af mörgum styrktaraðilum félagsins og einnig að útskýra nákvæmlega hvernig félagið stendur að stuðningi við aðstandendur krabbameinssjúklinga, þ.e. hvernig það kemur að því að hughreysta nákomna ættingja þegar þeir frétta að einhver ástvinur hafi veikst.

  Ég man að þegar kona móðurbróður míns greindist með krabbamein þá þagnað allt í fjölskyldunni og við tók eitt langt sorgarferli þangað til hún féll frá langt fyrir aldur fram, fimm barna móðir.

  Þetta sem félagið er að gera í dag er vel þegið og þarft verk og getur gert ferlið og aðdragandan eitthvað skárri en ef ekkert væri að gert. Sem betur fer hefur baráttan við skjúkdóminn skilað þó nokkrum árangri svo það er oft möguleiki á lækningu sem hér áður fyrr var varla talinn möguleiki. “Guði sé lof fyrir þær framfarir”.

  Ég hefi áður minnst á að krabbamein og hjartasjúkdómar eru helstu sjúkdómar sem binda enda á líf mannanna hér á jörðu. Í þriðja sæti er sjúkdómurinn “alkóhólismi” sem oft endar með geðveiki eða dauða. Því miður þá er ekki litið á þetta sem raunverulegan sjúkdóm. Oft aumingjaskap eða að viðkomandi sé sjálfum sér verstur og í slæmum félagsskap.

  Það er hægt að halda áfram endalaust að draga úr alvarleika þess mannskæða sjúkdóms. Oft fólk þegar fólk deyr úr þessum sjúkdómi er dánarorsökin sjaldan tilgreind rétt. Það er endalaust verið að dulbúa raunveruleikan með öðrum skilgreiningum, lifrarsjúkdómur, hjartaáfall, heilablóðfall, slys osfrv. Jafnvel þegar drukkinn maður verður annarri manneskju að bana, t.d. í bílslysi, þá er það ekki skráð sem dauði af völdum alkóhólisma.

  Alkóhólismi er sjúkdómur sem gert er grín að eða ekki tekið mark á. Það eru samdar drykkjuvísur, brandarar og jafnvel heilu bíómyndirnar sem ganga bara út á að gera grín að veiku fólki (já fárveiku fólki) ha, ha, ha!

  Það gerir einginn grína að dauðvona krabbameinssjúklingi eða hjartveikum manni. En langt gengin alkóhólisti er ýmist aðhlátursefni, fyrirlitinn eða sniðgenginn eins og hann sé holdsveikur.

  Ef rétt væri að staðið þá væri aðstandendum alkóhólista veitt samskonar aðhlynning og aðstandendum krabbameinssjúkra. Ekki síður nauðsynlegt m.a. vegna þess að fólk á erfitt með að sætta sig við að viðkomandi sé veikur, heldur jafnvel að það sé nóg að hysja bara upp um sig buxurnar og hætta óreglunni.

  Því miður er þetta ekki svona einfalt. Þetta er dauðans alvara. Plís!

  Auglýsing