Dagur B Eggertsson borgarstjóri hefur skrifað dómsmálaráðherra bréf þar sem hann krefst þess að löggæsla verði aukin í borginni. Hann segir meðal annars:
„Framlög til löggæslu á svæðinu hafa verið af það skornum skammti að draga hefur þurft úr löggæslu þar á meðal í almennri löggæslu eins og rekstraráætlun lögreglunnar höfuðborgarsvæðinu fyrir þetta ár ber með sér.”
Á sama tíma hefur þörfin fyrir aukna og sýnilega löggæslu aukist meðal annars vegna gríðarlegrar fjölgunar ferðmanna sem nær allir staldra við um styttri eða lengri tíma í Reykjavík. Þá vill borgarstjóri að tekið verði tillit til þriggja þátta í gerð fjárlagsfrumvarps varðandi fjárframlög til höfuðborgarlögreglu:
„Í fyrsta lagi er bráðnauðsynlegt að auka almenna sýnilega löggæslu. Horfa þarf til þess að ferðamönnum hefur fjölgað mikið umferð á höfuðborgarsvæðinu er vaxandi haldnar eru stórar hátíðir víða um borgina á hverju ári sem draga að sér mikinn mannfjölda. Í öðru lagi er mikilvægt að lögreglan sé vel í stakk búinn til að fylgja eftir átaksverkefni gegn heimilisofbeldi og kynbundnu ofbeldi sem sett var í gang í samvinnu Reykjavíkurborgar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2014. Í þriðja lagi er ótækt að auknar kröfur til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um þjálfun lögreglumanna leiði til þess að fækka þurfi um 15 stöðugildi lögreglumanna á svæðinu til að standa undir þeim kröfum á næsta ári og eru þá ekki talin með sú fækkun lögreglumanna um 5 sem fyrirsjáanleg var á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram fyrr í haust. Samkvæmt því sem nú liggur fyrir er því framundan fækkun um 20 lögreglumenn sem vinda þarf ofan af.”