COSTCO STÍFLAR KLÓSETTIN

  Blautþurrkustaflarnir í Costco - og Costco selur líka klósett.
  Húsmóðir í Vesturbænum:
  Í Costco eru staflarnir af ódýrum blautþurrkum í risastórum umbúðum. Á þeim stendur að óhætt sé að sturta þeim niður úr klósettinu. Þetta er rangt. Blautþurrkurnar stífla dælustöðvar fráveitunnar og í mörgum tilfellum sjálf klósettin. Af því eru sagðar reglulegar fréttir að hleypa þarf óhreinsuðu skólpi út í fjöruna meðan blautþurrkur, smokkar, dömubindi og tannþráður eru hreinsuð úr síunum.
  Blautþurrkurnar eru ekki úr pappír eins og klósettpappírinn, heldur úr plasti. Þær leysast ekki upp í klósettinu eða skólprörunum.
  Costco er svo sem ekki eitt um að fullyrða að sturta megi blautþurrkunum niður. En í Costco kaupa flestir blautþurrkurnar, því þær eru á hagstæðasta verðinu í þessum stóru pakkningum – 632 blautþurrkur í hverjum pakka. Það er hægt að stífla hressilega með slíku magni.
  Réttast væri af Veitum að senda Costco og hinum verslununum reikninginn fyrir hreinsunarstarfinu. Best væri þó ef foreldrar ungbarna hefðu sjálfir vit á því að setja blautþurrkurnar ekki í klósettið. En hver láir þeim, það stendur jú á umbúðum að það megi.
  Að sjálfsögðu gerir enginn kröfu um að yfirvöld geri eitthvað í málinu. Fyrst þarf nefnilega að skipa samráðshóp, svo að skipa nefnd til að semja skýrslu, svo að gera drög að reglugerð og fá umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda. Og svo að gera ekki neitt frekar vegna þess að enginn fylgir því eftir.
  Auglýsing