BRAUT RÚÐU HJÁ SPAUGSTOFUMANNI

Karl Ágúst og brotna rúðan í jeppanum hans.

“Ágæti skemmdarverkamaður. Ég ætlaði upphaflega að kalla þig skemmdarvarg, en hætti við vegna þess að ég vildi ekki særa þig,” segir Karl Ágúst Úlfsson leikari, rithöfundur og aðalsprautan í Spaugstofunni frægu. Hann varð fyrir tjóni en tekur því með æðruleysi:

“Ég veit ekki alveg hvers vegna þú ákvaðst að brjóta rúðuna í bílnum mínum, svo ég get einungis reynt að gera mér það í hugarlund. Það veit heilög hamingjan að ekkert í honum innanborðs var þess virði að stela því, enda sé ég ekki að neitt hafi horfið úr honum. Svo líklega þurftirðu einfaldlega að fá útrás fyrir tilfinningar, sem þú einn ert til frásagnar um. Ég vona að þar með sértu laus við þær og getir snúið þér að uppbyggilegri athöfnum. Mér þykir í öllu falli mun betra að þú brjótir hjá mér rúðu en að þú skaðir sjálfan þig, sem hefði hæglega getað orðið niðurstaðan. Það hefði ég ekki viljað hafa á samviskunni. Svo vona ég að þú leitir þér hjálpar, en í öllu falli að þú hafir það sem allra best.”

Auglýsing