BOLLI BER Á BORGARSTJÓRA STUDDUR AF PÉTRI

  Þær vendingar hafa orðið í baráttunni um framtíð Laugavegar sem verslunargötu að Pétur Ármannsson arktekt, einn helsti sérfræðingur landsins í skipulagsmálum, hefur lýst yfir stuðningi við Bolla Kristinsson kaupmann. Gerðist það í sjónvarpsviðtali við Björn Jón Bragason á Hringbraut þar sem fjallað var um skipulag miðbæjarsins.

  Pétur Ármannsson lýsir yfir stuðningi við Bolla í sjónvarpssal.

  Skömmu áður hafði Bolli sjálfur verið í sínu fyrsta sjónvarpsviðtali á Hringbraut þar sem hann barði á Degi borgarstjóra sem hann ítrekað sagði vera versta borgarstjóra í Reykjavík frá upphafi. Endurtók hann ummælin í útvarpsviðtali við Arnþrúði Karlsdóttur á Sögu og segist ekki ætla að linna látum fyrr en Dagur yrði settur af sem borgarstjóri og Samfylkingin öll, svo smituð sé hún af einstrengnishætti borgarstjóra í málefnum Laugavegar.

  Sem kunnugt er af fréttum – sjá hér – vill Bolli fara akureysku leiðina í göngugötumálum. Loka fyrir bílaumferð á góðviðrisdögum en hafa opið í illviðrum.

  Bolli lætur borgarstjóra hafa það óþvegið á Hringbraut.

  Bolli er þess fullviss að dagar Laugavegarins sem verslunagötu séu brátt taldir verði stefnu Dags borgarstjóra og meðreiðasveina hans haldið til streitu. Kaupmenn hverfi á braut frá tómum afgreiðslukössum og dæmsi séu þess að Laugavegskaupmaður hefi aukið veltu verslunnar sinnar um 50 prósent með því að flytja upp í Ármúla.

  “Sjálfur fjárfesti ég í þrjú þúsund fermetra verslunarhúsnæði á Laugavegi fyrir um tvo milljarða króna á núvirði vegna þess að ég treysti borgaryfirvöldum. Það er líklega það heimskulegasta sem ég hef gert um ævina,” segir Bolli og ætlar ekki að láta deigan síga fyrr en Dagur borgarstjóri og hans lið er á braut.

  Auglýsing