BO! MINNING

  Kannski eru 30 ár síðan eða svo. Var í sólarhringsstoppi í Washington DC á leið með lögfræðingi frá LA til KEF. Höfðum frétt af árshátíð Íslendingafélagsins í borginni um kvöldið, gripum gæsina heita og mættum.

  Þar lék hljómsveit Gunnars Þórðarsonar fyrir dansi, reyndar voru þau aðeins þrjú í bandinu, Gunnar, Edda Borg og Björgvin Halldórsson sem er sjötugur í dag.

  Svo slúttaði ballinu, gestir héldu heim en eins og áður hafði gerst og reyndar síðar líka, enduðum við Björgvin á kjaftatörn baksviðs og urðum síðastir út. Tókum taxa á hótelið þar sem við báðir gistum þessa einu nótt, Holiday Inn minnir mig, með stefnuna á hótelbarinn sem reyndar var búið að loka enda mið nótt.

  Nú voru góð ráð dýr þar sem við stóðum tveir í sparifötunum í tómu hótellobbíi þar til Björgvin rak augun í hurð þar sem á stóð: Manager. Eftir að hafa bankað ákveðið á hurðina birtist managerinn líkt og nývaknaður, leit á okkur með furðusvip en gafst ekki frekara ráðrúm því Björgin rétti fram höndina snöggt og ákveðið og sagði djúpri röddu: Bo!

  Af augnaráði mannsins mátti lesa að hann varð á örskotsstundu að gera upp við sig hvort hér væru geðsjúklingar á ferð eða stórstjörnur og kaus að velja síðari kostinn. Opnaði hótelbarinn og spurði: What would you like to have?

  Þarna sátum við svo á meðan nóttin hélt áfram að líða.

  Auglýsing