Berghildur Erla Bernharðsdóttir boðar endurkomu sína á fréttatofu Stöðvar 2 í afmælisviðtali í Morgunblaðinu í dag í tilefni af fimmtugsafmæli hennar: “Það eru mikil tímamót hjá mé núna því ég kvaddi frábæra vinnufélaga hjá Höfuðborgarstofu í gær og hef svo störf sem fréttamaður á Stöð 2 þann 15. febrúar,” segir hún.
Þekktust er Berghildur fyrir að hafa starfað sem fréttamaður á Ríkissjónvarpinu frá árinu 2000 þangað til hún tók við sem upplýsingafulltrúi Nýja Kaupþings fljótlega eftir hrun eða í febrúar 2009. Þar var hún Finni Sveinbjörnssyni bankastjóra og yfirstjórn bankans til halds og traust í atganginum og stóð í ströngu við að svara fjölmiðlum. Á korteri fór hún frá því að segja fréttir í að reyna að drepa fréttir svo eftir var tekið. Stundum kölluð á ritstjórnum upplýsingafulltrúinn sem veitti engar upplýsingar. Þaðan fór hún til starfa hjá Stjórnlagaþingi, svo til Listasafns Reykjavíkur og síðast Höfuðborgarstofu. Nú hefur hún boðað endurkomu sína í fréttir og víst að margir bíða spenntir eftir að fréttirnar fari að flæða frá henni.