“Ég reyndi að kaupa lénið fermingar.is en það var of dýrt,” segir töframaðurinn Einar einstaki sem rekur barnaafmæli.is og ætlaði með kaupunum að víkka út starfsemi sína.
Á barnaafmæli.is býður Einar upp á þjónustu eins og nafnið gefur til kynna; allt sem viðkemur barnaafmælum frá tertum til töfrabragða og gengur bara vel.
En þetta með fermingarnar er enn í járnum.
Eigandi fermingar.is er Keflvíkingurinn Atli Már Jóhannsson og er búinn að eiga það lengi án þess að vera með starfsemi líkt og Einar einstaki í barnaafmælunum.
Þjóðkirkjan og Siðmennt sinna brúðkaupum og skírnum og útfararstofur jarðarförum.
“Nei, ég myndi aldrei fara í jarðarfarabisnissinn. Ég geri að stórum hluta út á töfrabrögð mín og varla færi ég að sýna þau í útförum,” segir töframaðurinn Einar einstaki sem er aðeins tvítugur að aldri – rétt að byrja.