BALDUR HEFUR SAMÚÐ MEÐ KOLBEINI

    “Ég skil Kolbein og hef samúð með honum,” segir lífskúnstnerinn Baldur Hermannsson um Kolbein Proppé sem fauk úr pólitík í #MeToo 2 bylgjunni sem nú geisar.

    “Ég les milli línanna að hann hafi einhvern tíma á lífsleiðinni, sennilega í bernsku, mátt þola mikil áföll, höfnun og ranglæti og það hefur skaddað sálarlíf hans. Áður hefur hann greint frá ofdrykkju sinni, óreiðu og gjaldþroti. Hann treystir ekki konum og getur ekki myndað djúpt og varanlegt samband þótt hann dauðlangi til þess. Það er grimmlynt fólk og illa innrætt sem ekki hefur samúð með manni sem svona er ástatt fyrir.

    Minnumst þess að konur eru í aðra röndina geysi harðlyndar. Þótt þær ausi af nægtabrunnum blíðunnar yfir spengilega fótboltagarpa, rokkstjörnur og auðkýfinga, eru þær að sama skapi sparar á ástina við þá sem eiga á brattann að sækja … ljótir menn og leiðinlegir, feitlagnir, lágvaxnir, blankir, feimnir og vandræðalegir, sköllóttir, nærsýnir, málstirðir, haltir og andfúlir sæta harðneskjulegri höfnun kvenna alla ævi, enginn vorkennir þeim og þeir bera harm sinn í hljóði.
    Karlmenn koma illa fram við konur og konur koma illa fram við karlmenn … sá er nú bara gangur lífsins og fátt við því að gera.”
    Auglýsing