AUGLÝSINGAFÉ FJÖLMIÐLANNA

    Fjölmiðlanefnd hefur tekið saman upplýsingar um skiptingu birtingafjár milli fjölmiðla árið 2017 en tölurnar byggja á upplýsingum frá stærstu birtingahúsum landsins: ABS fjölmiðlahúsi, Birtingahúsinu, MediaCom, H:N Markaðssamskiptum og Ratsjá Media (Ratsjá og Pipar-TBWA.)

    Birtingafé er það fé sem fyrirtæki verja til auglýsinga í fjölmiðlum. Samantekt fjölmiðlanefndar leiddi í ljós að árið 2017 ráðstöfuðu stærstu birtingahúsin á Íslandi auglýsingafé fyrir rúma fimm milljarða króna eða alls 5.415.658.414 sem var heldur lægri upphæð en árið 2016 þegar sömu birtingahús keyptu auglýsingar fyrir 5.512.108.040 kr.

    Niðurstöður um skiptingu birtingafjár fyrir árið 2017 sýna jafnframt að prentmiðlar héldu velli sem stærsti auglýsingavettvangurinn á íslenskum markaði, auk þess sem gera má ráð fyrir að hlutdeild þeirra hafi verið töluvert meiri en þessar tölur gefa til kynna, því að auglýsingar og kynningar eru í mörgum tilfellum keyptar milliliðalaust af prentmiðlunum sjálfum. Sjónvarp hlaut næststærsta hlutann af auglýsingakökunni, líkt og fyrri ár. Birtingahús ráðstöfuðu þó hlutfallslega minna fé til prentmiðla og sjónvarpsmiðla árið 2017 en 2016. Á móti var meira fé ráðstafað til útvarps, innlendra og erlendra vefmiðla og í flokkinn „annað“ en í þann flokk falla m.a. auglýsingar á útiskiltum og í kvikmyndahúsum.

    Auglýsing