ÁRMANN HITTIR GUNNAR SMÁRA

  "Ritstjórinn ungur að árum, svartklæddur með dökkt sítt hár var undrandi - átti ekki von á Ármanni."

  Ármann Reynisson rithöfundur og fyrrum fjármálafursti sendir póst:

  Á árinu 1990 birtist tveggja síðna opnugrein í Pressunni undir stjórn ritstjórans Gunnars Smára Egilssonar núverandi foringja Sósíalistaflokksins. Þar var farið rangt og meiðandi með ýmislegt varðandi Ármann Reynisson og fyrirtæki hans Ávöxtun, verðbréfamiðlun, sem lagt var í rúst eftir árás Ólafs Ragnars Grímssonar síðar forseta Íslands og félaga hans í Seðlabanka Íslands. Það vakti sérstaklega athygli risastór mynd af Ármanni á miðri opnunni. Andlitið var af gamalli ljósmynd en búkurinn var klipptur af myndinni og í staðinn teiknuð niðrandi skrípamynd af forstjóranum fyrrverandi. Á þeim tíma var Ármann ekki búinn að jafna sig eftir tveggja ára áföll og fjölmiðlahamfarir. ,,Sparkað var af alefli í liggjandi mann.‘‘

  Ármann Reynisson hafði þann sið, eftir áhlaup hvers fjölmiðils um sig, að heimsækja ritstjóra eða fréttastjóra þess og spyrjast fyrir um tilurð umfjöllunnarinnar. Já, hann hitti oftast fyrir reiða og hrokafulla hvíta, miðaldra karlmenn, undantekning Styrmir heitinn Gunnarsson fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins. Starfshættir fjölmiðla þess tíma voru að bera ,,aldrei‘‘ æsiskrif sín um Ármann og fyrirtæki hans undir forstjórann fyrrverandi né fá fróðleik hjá honum um tilurð mála.

  Það var árla dags á fallegum sólríkum sumardegi að Ármann bankaði upp á skrifstofu Gunnars Smára ritstjóra Pressunnar í Kópavogi. Athygli gestsins vakti hversu fallegt útsýnið var yfir Fossvogsdalinn. Ritstjórinn ungur að árum, svartklæddur með dökkt sítt hár var undrandi – átti ekki von á Ármanni. Þegar gesturinn bar upp erindið kom hæðnisglott á andlitið – maðurinn umturnaðist. Ritstjórinn hellti sér yfir Ármann með hæðnisglotti og hroka segir:,, Þú ættir ekki að segja mikið sem berð ábyrgð á ógæfu hundruð viðskiptavina þinna.‘‘ Síðan komu nokkrar vel valdar háðsglósur.

  Á þessarri stundu opinberaðist Ármanni innri maður, inn að kviku, Gunnars Smára ritsjóra. Eftir ádrepuna mælti Ármann:,,Þú ert ungur að árum og átt eftir að reyna margt í lífinu – þú átt ,,líklega‘‘ aldrei eftir að læra af lífsreynslunni né höndla nokkuð sem þú tekur fyrir hendu á lífsleiðinni.‘‘ Síðan kvaddi gesturinn.

  Gunnar Smári Egilsson hefur flogið hátt og víða frá þessum eftirminnanlega fundi. Hann hefur brotið margar brýr að baki sér – virðist ávallt stikkfrír. Og hefur jafnan greiðan aðgang að fjármunum og fjölmiðum landsins hvað sem gengur á. Það ,,kaldhæðnislega‘‘ er að Gunnar Smári hefur þörf fyrir að heilsa Ármanni Reynissyni ef þeir hittast óvænt á förnum vegi.

  Spurningin er hvort Sósíalistaflokkur Íslands ,,í höndum núverandi forningja‘‘ fari sömuleið og allar aðrar fyrrum skýjaborgir hans. Rætist enn aftur framtíðarsýn Ármanns forðum á framtíð Gunnars Smára Egilssonar sem stjórnmálamanns?

  Reykjavík 15.09.2021
  Ármann Reynisson

  Auglýsing