Anna Kristjánsdóttir, landsþekktur vélstjóri, hefur búið á Tenerife um skeið. Hún er í átaki og hefur því hætt að drekka bjór:
“Frá því nokkru fyrir jól hefi ég verið í aðhaldi með vægast sagt lélegum afleiðingum. Ef frá er talið gamlárskvöld hefi ég ekki drukkið bjór síðan 20. desember. Ég gætti mín bæði um jól og áramót minnug þess að eitt kíló af súkkulaði breytist í tvö kíló af konu við neyslu og ég fer í gönguferð á hverjum degi. Samt er árangurinn sáralítill.
Í gær gætti ég mín mjög vel. Mældi mig eftir fyrsta morgunpiss og byrjaði daginn á einni samloku og kaffi, hádegismaturinn samanstóð af fáeinum baconsneiðum og tveimur eggjum og kvöldmaturinn einungis tvær Frankfurterpylsur án viðbits. Með þessu drakk ég ómælt magn af sódavatni.
Ég fór á Bar-Inn að venju og sagði fólki nokkrar krassandi lygasögur og skolaði niður með sódavatni. Ég fór svo snemma heim og í rúmið til að tryggja að allur bjúgur yrði farinn úr líkamanum að morgni.
Þegar klukkan hringdi í morgun spratt ég framúr eins og fjöður, mældi mig eftir fyrsta piss og vonbrigðin urðu hræðileg. Ég hafði þyngst um 200 grömm.
Það er ekki nema tvennt í stöðunni. Annað hvort lýgur nýja vigtin mín eða það sem ég held. Sódavatn er fitandi.”