AÐ STJÓRNA NÖRDUNUM

  "Þessi sem læðist aftan að manni" heitir þessi mynd Steina pípara.

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Ég skil orðið menntun þannig að það sé öflun þekkingar sem eykur skilning og víðsýni manna. Þannig er háskólanám ekki menntun í þeim skilningi og síður eftir því sem menn afla sér meiri sérhæfingar. Háskólinn þjálfar fólk til ákveðinna starfa alveg eins og iðn- og tækniskólar. Menntaskólanám er almennara en þó orðið sérhæfðara en það var. Menn velja sér einingar eða deild og þá víkur annað fyrir aðal fögunum.

  Steini pípari er líka nörd.

  Menn afla sér menntunar í þessum skilningi utan skólakerfisins. Sumar leita eftir því aðrir eru blindir á allt nema það sem þeir hafa lært í skóla. Þeir sem leita eftir raunverulegri menntun verða betri borgarar af því að víðsýni þeirra eykur skilning á því sem aðrir eru að fást við.

  Atvinnurekendur hafa brugðist við skorti á víðu sjónarhorni með teymisvinnu. Þar starfa saman nördarnir sem hafa yfirgripsmikla þekkingu hver á sínu þröngu sviði og einstaklingar sem hafa yfirborðsþekkingu á mörgu og geta stýrt vinnu nördanna. Við höfum nefnilega bæði þörf fyrir menntun og sérhæfingu.

  Auglýsing