500 MILLJÓN KRÓNA GLÆSIHÖLL ANDRA MÁS

  Andri Már Ingólfsson, eigandi hins skuldsetta og gjaldþrota Primera flugfélags og fjölda ferðaskrifstofa á Norðurlöndunum (þar á meðal Heimsferða og Terranova), flutti í fyrrasumar ásamt fjölskyldu sinni inn í glæsilegt einbýlishús við Sólvallagötu 14. Í heilt ár vann herskari verktaka og iðnaðarmanna hörðum höndum að því að endurnýja húsið frá grunni. Varlega áætlað stendur kostnaður við húsið í 500 milljónum króna.

  Sólvallagata er með dýrustu götum borgarinnar og hús nr. 14 er 576 fermetrar á fjórum hæðum. Áður voru þar fjórar íbúðir, en Andri Már og eiginkona hans Valgerður Franklínsdóttir keyptu allt húsið í byrjun 2016. Í heilt ár voru á milli 10-20 iðnaðarmenn alla daga að störfum í húsinu og lokahnykkurinn var tekinn með umbyltingu á garðinum síðatliðið sumar, rétt áður en fjölskyldan flutti inn.

  Það hlýtur að fara vel um Andra Má og Valgerði og börn þeirra í húsinu. Hjónaherbergi á 2. hæð er 25 fermetrar og fataherbergið 18 fermetrar. Barnaherbergin eru tæpir 20 fermetrar hvert og baðherbergið tæpir 16 fermetrar.

  Á jarðhæð eru tvö 18 fermetra gestaherbergi, 24 fermetra skrifstofa og 16 fermetra þvottaherbergi. Á fyrstu hæð eru stórt sjónvarpsherbergi sem er opnanlegt inn í stofu og borðstofu sem eru samtals tæpir 50 fermetrar. Eldhúsið er 15 fermetrar og við hlið þess er 15 fermetra fataherbergi.

  Í risinu eru tvö 35 fermetra svefnherbergi, snyrting og svalir.

  Þegar Andri Már og Valgerður keyptu Sólvallagötu 14 var fasteignamat þess 200 milljónir króna. Markaðsvirði er yfirleitt hærra en fasteignamat.

  Allar vatnslagnir og fráveitulagnir voru endurnýjaðar og ný drenlögn sett við húsið. Allar raflagnir voru endurnýjaðar. Allir gluggar voru endurnýjaðir ásamt gleri, svo og allar hurðir. Aðeins útidyrahurðin var notuð áfram.

  Öll veggjaeinangrun að innan var rifin niður og sett upp ný einangrun sem var múrhúðuð.

  Tveir stigar milli hæða inni í húsinu voru teknir niður og nýr stigi byggður í stað þeirra, sem nær frá jarðhæð upp í ris. Nýtt anddyri var byggt og eru svalir ofan á því. Tveir nýir kvistir voru byggðir og geymslur stækkaðar um tugi fermetra.

  Endurnýjun húss af þessari stærðargráðu er mun dýrari en að byggja nýtt frá grunni. Þeir sem til þekkja í þessum bransa telja að kostnaðurinn hafi ekki verið undir hálfri milljón króna á fermetrann, sem gerir tæpar 300 milljónir króna í heild sinni. Sá kostnaður kemur til viðbótar kaupverði hússins, sem er vafalítið töluvert yfir 200 milljón króna fasteignamatinu. Í ljósi frétta af kostnaði við endurnýjun braggans í Nauthólsvík eru þessar upphæðir væntanlega afar varlega áætlaðar.

  Andri Már og fjölskylda hans nota húsið aðeins sem gististað í Reykjavík, þar sem lögheimili þeirra er í Sviss. Þar í landi er skattalöggjöf afar hagstæð súper-ríku fólki sem fær tekjur sínar af starfsemi utan Sviss. Tekjur þess eru semsagt ekki skattlagðar í Sviss, sama hversu háar þær eru, heldur er einungis lagður skattur á verðmæti eigna þeirra í Sviss. Þetta mið-Evrópuríki hefur því löngum haft aðdráttarafl fyrir þá sem hafa mjög miklar persónulegar tekjur af alþjóðlegri starfsemi, en vilja ekki borga skatta. Þess má geta að Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, Kaupþing, Al-Thani og Kvíabryggju, hefur um árabil átt lögheimili í Sviss.

  Auglýsing