SAGT ER…

…að borist hafi póstur frá Steina pípara:

Hæ gamli, 

Melatónín í stað ávanabindandi svefnlyfja.

Í Bandaríkjum Norður Ameríku er heroínfaraldur. Ástæðan er rakin til verkja og svefnlyfja sem hafa í sér efni sem breytast í morfín í líkamanum, sem er svipað efni – bæði opióð, bæði efnin eru róandi og breyta upplifun verkja.

Hér á landi hefur einnig orðið vart við mikla aukningu á heróínfíkn en efnið er skelfilega ávanabindandi og eyðileggur líf manna og drepur.

Í umfjöllun fjölmiðla um þessi mál hefur verið brugðið upp myndum af þeim lyfjum sem hafa þessi hættulegu áhrif og m.a. var þar svefnlyf sem ég hef þurft að grípa til einstöku sinnum.

Vinur minn sem ferðast nokkuð erlendis hefur flutt inn efnið melótónin sem fæst sem fæðubótaefni í Bandaríkjunum. Hann sagði að það væri hormón sem heiladingullinn gæfi frá sér náttúrulega á svefntíma ef eðlileg birtubreyting væri til staðar, en skammdegið, sjónvarps og tölvugláp gætu truflað þá eðlilegu dægursveiflu.

Mér fannst tilvalið að kaupa það í stað þess að taka ópíóð sem mér er meinilla við. Ég fann það ekki í apótekum eða heilsubúðum. Þá datt mér í hug að flytja það inn en skildi ekki af hverju það væri ekki gert í stórum stíl. Ég hringdi því í lyfjaeftirlitið. Þar var til svara mjög almennilegur maður, sem tjáði mér að ég mætti ekki flytja það inn. „Er þetta hættulegt efni,“ spurði ég. „Nei það er ekki talið hættulegt í venjulegum skömmtum,“ svaraði hann. „Hvernig í ósköpunum stendur á því að ekki má flytja það inn.“ Svar hans var þetta: „Við getum ekki treyst því að framleiðslan sé vönduð.“

Jahérnahér. Það er semsagt verið að gefa Íslendingum ópíóð í stað náttúrefnis af því að menn geta treyst framleiðslu á ópíóðum en ekki framleiðslu á melatóníni. Mér var hugsað til deilunnar um gæði mismunandi ginseng efna sem talin eru hafa lyfjaáhrif og mátt flytja hingað án frekari könnunar á upprunanum. Allskonar náttúrulyf eru flutt inn án takmarkana. Melatónín hefur verið rannsakað og það er efni sem líkaminn sjálfur framleiðir en það má ekki flytja inn. Betra er að gefa morfínskild lyf að áliti lyfjaeftirlits.  

Auglýsing