Lesandi skrapp í Leifsstöð:
—
Lúmskasta fjárplógsstarfsemi í heimi er stunduð á bílastæðunum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Bílstjórum er boðið að leggja “frítt” á skammtímastæðunum í 15 mínútur. Staðreyndin er hins vegar sú að nánast enginn kemst af með 15 mínútur.
Hvort sem verið er að fara með fólk út á völl eða sækja það, þá er allt svo seinlegt að kortérið er liðið áður en hægt er að segja bless eða halló við ferðalangana sem verið er að fara með út á völl eða sækja.
Engu að síður reynir fólk að flýta sér sem mest til að nýta sér fría stoppið, en allt kemur fyrir ekki. Flugstöðin losnar við fólk út af stæðunum, en alls ekki fyrr en það er búið að punga út 500 krónum fyrir þessar 3, 5 eða 7 mínútur sem það var umfram. Þetta er hreinræktuð rányrkja, því ef við gefum okkur að hver bíll sé að jafnaði farinn af stæðinu eftir 20 mínútur, þá er flugstöðin að fá 1.500 kr. fyrir hvern klukkutíma. Það er álíka mikið og þarf að borga í stöðumæli í miðborg Reykjavíkur í heilan sólarhring.