VINUR MINN ÓFEIGUR ER DÁINN – MINNING

  Ég hitti Ófa fyrst sumarið 1965. við vorum báðir að vinna hjá Íslenskum aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli. Hann í Keflavíkurveginum og ég við byggingu slökkvistöðvarinnar. Hann var 17 ára og ég 16. Við bjuggum í gömlum hermannabröggum 5 daga vikunnar.

  Við vorum báðir sérstakir og áttum strax skap saman. Það var svaka sport að fara upp í Viking kaffiteríu eða Messann sem kallaður var og fá hamborgara hjá Kananum. Stundum svindluðum við okkur inn í í bjórklúbbinn sem þar var og keyptum bjór á 25 cent. Þá keypti maður dollara af leigubílstjórunum á svörtum.

  Ófeigur og Hildur sumarið ’68.

  Um helgar fórum við í bæinn að djamma. Einu sinni á sunnudagskvöldi þegar við vorum á leið upp á völl ákváðum við að fara í Silfurtúnglið sem var lítill skemmtistaður fyrir ofan Austurbæjarbíó. Annað hvort var lokað, uppselt eða bara að við komust ekki inn. Nemahvað það var hlé í bíó svo við laumuðumst inn. Þá vildi svo til að ég sá Lilju sem ég var með í bekk í Verzló en hún og vinkona hennar, Hildur, voru í bíó. Úr þessu varð hjónaband og tveir myndarlegir synir, Bolli og Bjössi.

  Tveimur árum seinna fór hann að læra að verða gullsmiður en ég fór að læra kokkinn. Við Ófeigur héldum vinasambandi okkar áfram. Hann var sá sem hafði vitið. Einu sinni fórum við á puttanum uppí Húsafell bara að gamni. Við hittumst reglulega heima hjá hvor öðrum eða fórum saman í útilegur eftir að við stofnuðum fjölskyldur.

  Ófi smíðaði giftingahringina þegar ég giftist Jónu og enn þann dag í dag eigum við bæði hringa sem hann smíðaði fyrir okkur þegar við útskrifuðumst úr námi. Hann var svo hugmyndaríkur og mikill listamaður.

  Eitt sinn þegar þau voru þau Ófi og Hildur hjá okkur í mat í Hafnarfirði. Þetta var sumarið 1972 þegar Fischer og Spassky tefldu um heimsmeistaratitilinn í skák. Allir á Íslandi voru að tala um þennan mikla viðburð og að þessu tilefni var gefið út sérstakt frímerki sem almenningur hélt að yrði hin besta og besta fjárfesting. Þá stingur Ófeigur upp á því að við setjum auglýsingu í New York Times og bjóðum fólki að senda okkur 5 dollara og fá sent merkt umslag frá einvíginu. Allir héldu að augu heimsins væru á Íslandi. Okkur hafði verið sagt að það væri heil sjónvarpsstöð sem gerði ekkert annað en að senda frá Íslandi fréttir af skák dagsins. Ég sagði nei við Ófeig og lagði frekar til að við færum bara út til New York með helling af stimpluðum umslögum og seldum hægri vinstri.

  Það varð úr að við söfnuðum saman 2.000 stimpluðum umslögum sem við fórum með út til New York. Það kom í ljós að það hafði enginn áhuga á þessu einvígi og því síður merktum umslögum frá Íslandi. Við fundum 3 skákklúbba sem endaði með því að við seldum tíu umslög í einum þeirra fyrir 6 dollara. Leigubílinn kostaði 5 dollara og 40 cent. Svo gáfum við önnur tíu. Við eigum núna sitthvor 990 umslög sem geymd eru í gömlum skókassa einhversstaðar í gamalli geymslu. Við komum heim með skottið á milli fótanna, það tók tvö ár að jafna sig fjárhagslega eftir ævintýrið. En alltaf gaman að rifja söguna upp.

  Ófi hélt upp á fertugsafmælið á Hard Rock Cafe með pompi og prakt. Við Jóna fórum út að borða a Austur Indíafjelaginu með Ófa, Hildi og strákunum og fjölskyldum þeirra þegar hann varð sjötugur. Það var bara eins og að fara aftur á bak í tíma.

  Ófeigur hringdi í mig á hverjum einsata afmælisdegi og óskaði mér til hamingju. Ég hringdi aldrei í hann. Hann var vinur vina sinna og alltaf tilbúinn í að sprella eitthvað eins og Kjötsúpudagurinn og Beikonhátíðin bera vott um. Það verður sjónarsviptir af hvarfi hans af Skólavörðustígnum.

  Hildi, Bolla og Bjössa votta ég samúð mína. Hvíl þú í friði, vinur minn Ófi.

   

  Auglýsing