VINSTRI VÆNIR

  Borist hefur póstur frá vinstri:

  Í kjölfar myndunar nýrrar ríkisstjórnar hafa margir flokksmenn sagt sig úr Vinstri grænum þar sem flokkurinn þykir hafa brugðist vinstri hugsjóninni með því að renna stoðum undir áframhaldandi íhald og jafnvel spillingu.

  Eftir að hafa horft á nýja forsætisráðherrann, Katrínu Jakobsdóttur, í skemmtiþætti á föstudagskvöld, spyrja margir hvort flokkurinn sé raunverulega grænn? Þar skýrði Katrín frá því að hún hefði þurft að fara og kaupa í matinn sama dag og hún tók við embætti forsætisráðherra þar sem maðurinn hennar var veikur og vantaði mat fyrir börnin.

  Kvaðst Katrín þá hafa tekið málið upp á fundi hjá vinstri grænum þar sem allir hafi haft skoðun á því hvað hún ætti að kaupa í matinn fyrir börnin sín á þessum merka degi í lífi hennar. Niðurstaðan var að hún gæfi þeim grjónagraut og keypti slátur í Melabúðinni.

  Nú spyr vegan-fólkið sem margt hvert kýs vinstri græna af hverju þeir séu svona hallir undir dýraafurðir. Vitað sé að framleiðsla kjöts hefur veldur meiri skaða í umhverfinu en margt annað. Einn fylgifiskur aukinnar kjötframleiðslu í heiminum er eyðing regnskóga. Sérfræðingar hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hafa reiknað út losun gróðurhúsalofttegunda frá hefðbundinni kjötframleiðslu og framleiðslu dýraafurða í heiminum. Um er aðallega að ræða nautgripi, svín, kindur, geitur, hænur og afurðir þeirra eins og egg og mjólk. Þegar allt er tekið með í reikninginn er áætlað að framleiðsla á kjöti og dýraafurðum valdi 14,5% af allri manngerðri losun gróðurhúsalofttegunda.

  Vaxandi hópur fólks hefur áhyggjur af afleiðingum loftslagsbreytinga og horfir með hryllingi á fjöldaframleiðslu dýra og borðar þar af leiðandi ekki kjöt og jafnvel ekki kjötafurðir. Kjötframleiðendur og umhverfissinnar rífast en Vinstri Grænir eða Miðju Vænir borða sitt slátur og eru með hugann við annað en gróðurhúsaáhrif kjötframleiðslu.

  Auglýsing