VALDIÐ (Á AÐ VERA) FÓLKSINS

  Kerfið hefur komið sér rækilega fyrir í miðbænum heitir þessi mynd Steina pípara.

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Stór hluti af þjóðfélagsumræðunni fer fram á samfélagsmiðlum sem eru í fárra manna eigu. Engum finnst það athugavert að þeir geti stjórnað því hvað þar fer fram. Margir hugsa sem svo að það sé nú barasta gott að stoppa Trump af. Öll skerðing á málfrelsi er hins vegar hættuleg lýðræðinu.

  Steini pípari í slætti.

  Hér áður fyrr höfðu flestar skoðanir sinn stað. Þjóðviljinn sagði að fjölmennt hefði verið í Keflavíkurgöngu en Mogginn sagði að fáir hefðu sést í henni. Þannig vissi maður fyrir hvað fjölmiðlar stóðu og gat lesið á milli línanna. Nú er þetta vandasamara og menn óttast eitthvað sem kallað er upplýsingaóreiða og vilja hefta málfrelsið af þeim sökum. Hér áður fyrr lásu þeir sem vildu skilja málin öll blöðin og notuðu skynsemi til að finna það rétta. Þetta geta menn enn. Sumir lásu barasta eitt af flokksblöðunum og héldu þannig trú sinni. Sumir elta uppi upplýsingar sem henta skoðunum þeirra en aðrir skoða fleiri sjónarmið.

   Þegar menn vilja hefta málfrelsið, hvort sem það eru opinberir aðilar sem það gera, hópar eða einkafyrirtæki þá grefur það undan lýðræðinu. Megin hluti fólks er skynsamt og velur samkvæmt því ef umræða um málin eru opin og óþvinguð. Lýðræðið byggir á því að fólkið á völdin og felur það fulltrúum sínum til skamms tíma. Það getur ekki farið með það vald nema fyrir liggi óheft og frjáls skoðanaskipti sem eru ekki kæfð af stjórnvöldum, samfélagsmiðlum, né hópum sem stunda upphrópaðar skylduskoðanir. Eins og ljóst er vegna banns Þjóðverja á umræðu um helförina og nasista þá sést að umræðan hverfur ekki við það. Hún fer undir yfirborðið þar sem menn ná ekki að svara henni. Þannig virkar slíkt bann þveröfugt við það sem ætlað er. Mér líst ekki á hversu mjög er verið að þrengja að málfrelsinu. Það gæti komið í bakið á þeim sem vilja slíkt.

  Auglýsing