ÚLFAR ÁFRAM ÞRÁTT FYRIR TAPREKSTUR

  Borist hefur póstur úr reykfylltu bakherbergi:

  Margir klóra sér í hausnum yfir því að tilnefningarnefnd leggur til að næsta stjórn Icelandair Group verði óbreytt frá því sem nú er. Í millitíðinni hefur eignarhald á fyrirtækinu breyst verulega, sem ætti að endurspeglast í nýrri stjórn. Að ekki sé talað um að Icelandair Group tapaði 51 milljarði króna á síðasta ári.

  Einhver kann að segja að ekki þýði að kenna stjórn fyrirtækisins um stórfellt tap vegna áhrifa Covid-19 og vandræða með Boeing 737 Max þotur. En í afar athyglisverðri grein í Viðskiptablaðinu bendir fyrrum starfsmaður Icelandair Group á að fyrirtækið hefur verið rekið með tapi mörg undanfarin ár, ekki bara í fyrra.

  Egill Almar Ágústsson, fyrrum forstöðumaður leiðakerfis Icelandair, bendir á það í greininni í Viðskiptablaðinu að frá og með árinu 2017 hafi Icelandair tapað miklum fjármunum, mest árið 2018 þegar hvað mesti uppgangurinn var í ferðaþjónustunni. Gengi hlutabréfa félagsins lækkaði jafnt og þétt, alls um 96% frá 2016 til 2021. Hjá helstu keppinautum Icelandair hefur gengi hlutabréfa aftur á móti haldist nokkuð stöðugt þennan tíma.

  Egill Almar segir aðeins eina skýringu vera á þessari lélegu stöðu Icelandair. Meðan tekjur af hverri rekstrareiningu hafa haldist stöðugar, þá hefur kostnaður hækkað. Hann nefnir sem dæmi að á tveggja ára tímabili, frá 2016 til 2018 hafi einingakostnaður hækkað um 17%. Á sama tíma hefur keppinautum Icelandair tekist að bjóða sambærilega þjónustu með 20-25% minni kostnaði á hverja rekstrareiningu. Egill segir að stjórnendur Icelandair hafi haft óraunhæfar væntingar um að fargjöld myndu hækka, í stað þess að taka á kostnaðinum.

  Af þeim sem sitja í stjórn Icelandair og vilja vera þar áfram er aðeins einn stjórnarmaður sem hefur setið þar allan taptímann og gott lengur. Það er stjórnarformaðurinn, Úlfar Steindórsson, forstjóri og aðaleigandi Toyota á Íslandi. Hann tók sæti í stjórn Icelandair Group árið 2010 og hefur verið stjórnarformaður samfleytt frá 2017, árinu sem tapreksturinn byrjaði. Miðað við greiningu Egils Almars skrifast getuleysi Icelandair til að ná niður kostnaði á tíð Úlfars sem stjórnarformanns.

  Í ljósi þessarar stöðu og innkomu nýrra hluthafa furða margir sig á því að engin breyting sé lögð til á stjórn Icelandair Group. Tvö ný nöfn hafa þó verið nefnd til sögunnar, Steinn Logi Björnsson, sem hætti fyrir tveimur áratugum sem forstöðumaður hjá Icelandair og Þórunn Reynisdóttir sem einnig starfaði þar á árum áður, þekkt fyrir aða taka á kostnaðarhliðinni, þekkir félagið vel og helstu markaði þessi – hokin af reynslu og nú forstjóri Úrval Útsýn.

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinRÓSA 2%
  Næsta greinTED KENNEDY (89)