EF ÞÚ SEGIR “KÍKJA” EINU SINNI ENN, DREP ÉG ÞIG

  Tryggvi Gíslason

  “Hættur að reyna að breyta heiminn – amk fram yfir hádegi á sunnudag. 30 ár hef ég barist gegn notkun sagnarinnar kíkja,” segir Tryggvi Gíslason fyrrum skólameistari á Akureyri og uphefjast þá kostuleg og stórfróðleg samskipti á Netinu:

  Gylfi Pálsson: Þú manst hverju Jón Helgason er sagður hafa svarað Magnúsi frá Mel þegar hann ásamt nokkrum þingmönnum öðrum kom í Árnasafn og bað um að fá að “kíkja” á handritin. “Eruð þér með kíki með yður?”

  Tryggvi Gíslason: Hann sagði einnig við ungan starfsmann Árnasafns, ættaðan að norðan: “Ef þú segir “kíkja” einu sinni enn, drep ég þig.

  Sigurður Hreiðar: Konan hans, móðursystir mín, sagði við mig móðurlega: Segðu heldur að gægjast. Ég hef að mestu látið mér það að kenningu verða.

  Gunnar Magnús Sandholt: Hvað er að þessari fallegu sögn. Leiðir hugann að páfagauknum Kíkí sem Sigríður Thorlacius eða Kristmundur á Sjávarborg gerðu ódauðlegan í ævintýrabókum Enid Blyton þegar við vorum ungir. Enginn segir sjónauki, allir segja kíkir.

  Tobbo Thor: Verst þykir mér að Tryggvi hefur gefist upp á að breyta heiminn. Skítt með sjónaukann.

  Auglýsing