Costco rýnirinn skrifar:
–
Kirkland er eigin vörulína Costco. Kirkland hefur orð á sér fyrir að vera gæðavara, sama í hvaða vöruflokki sem er. Semsagt ekki Euroshopper. Alla jafna eru Kirkland vörurnar á hagstæðara verði en sambærilegar gæða-merkjavörur. Kirkland vörurnar standa undir ca fjórðungi af árlegum 25 þúsund milljarða króna sölutekjum Costco.
En hvernig fer Costco að því að „framleiða“ Kirkland gæðavörur á góðu verði? Hluta þeirra lætur Costco framleiða eftir eigin forskrift og nær kostnaðinum niður með risapöntunum. En drjúgur hluti kemur frá framleiðendum á þekktum merkjavörum sem Costco hefur þegar til sölu. Costco snýr upp á hendurnar á þessum framleiðendum og fær þá til að sérmerkja vörurnar með nafni Kirkland, stundum með smávægilegum breytingum. Sami framleiðandi getur því verið með nánast sömu vöruna hlið við hlið í rekkunum hjá Costco, en Kirkland merktu vöruna á lægra verði.
Hvers vegna gera framleiðendurnir þetta? Jú, Costco er þriðji stærsti smásali í heimi. Heimsþekkt vörumerki sætta sig við þetta svínarí til að komast þangað í viðskipti. Aðeins Amazon og Walmart eru með meiri smásöluveltu en Costco.