ÞÓRÐARGLEÐI ÞÓRDÍSAR

  “Mér hló söngfugl í brjósti þegar við ókum framhjá Discovery-jeppa sem löggan var að sekta úti í vegarkanti. Nokkrum mínútum áður hafði hann brunað fram úr okkur á allt of miklum hraða,” segir Þórdís Gísladóttir rithöfundur.

  Þórðargleði

  Þórður hét maður og bjó á bæ nokkrum í prestakalli mínu. Einn dag á slætti kom hann út á engjar til fólks síns og fékk þá engu orði upp komið fyrir hlátri: „He-he-he-he; he-he-he-he-he! Nú er það skemmtilegt hjá þeim Norðlingunum. Ég var að lesa Ísafold. Ekki þornað af strái í allt sumar þar fyrir norðan. Öll hey grotnuð niður. Enginn baggi kominn í hlöðu og nú kominn höfuðdagur.”

  Svo hnippir hann í mann sem hann stóð hjá og segir ískrandi: „Skratti væri nú gaman að sjá, hvernig þeir taka sig út núna, greyin. He-he-he-he!“ Þetta hugarfar, sem gleðst yfir óförum manna, kalla Danir Skadefryd. Við eigum ekkert orð í íslenzku, sem nær gleðinni í þessari illgirni. En síðan ég heyrði söguna af Þórði bónda í prestakalli mínu, hef ég nefnt þennan hugsunarhátt þórðargleði og þann mann þórðarglaðan, sem kætist yfir því, er öðrum gengur illa. En mikil fádæma hugarfarsspilling er nú þetta.

  Úr ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar eftir Þórberg Þórðarson.

   

  Auglýsing