ÞAÐ SEM EKKI STÓÐ Í FRÉTTINNI UM ÁSGEIR

  Úr bakherberginu:

  Á árum áður var til hálfgerð fræðigrein sem kölluð var Kremlarlógía, að lesa á milli línanna í því sem var að gerast í Kreml kommúnistanna í Moskvu.

  Fréttin um skyndilegt brotthvarf Ásgeirs Margeirssonar úr forstjórastóli HS Orku kallar á svipaðan lestur á milli línanna. Kremlarlógíu.

  Í fréttatilkynningu HS Orku er sagt að fyrirtækið og Ásgeir hafi komist að samkomulagi um starfslok hans. Þetta er fínimannatal um að hann hafi verið rekinn. Annars hefði verið sagt að hann hafi ákveðið að láta af störfum, hætt vegna aldurs eða eitthvað í þeim dúr.

  Út úr fréttatilkynningunni má líka lesa hvað leiddi til brottrekstursins. Þar er fjallað um þrjú “mikilvæg og umfangsmikil” verkefni sem HS Orka vinnur að um þessar mundir. Staðreyndin er hins vegar að fjögur slík verkefni eru á könnu HS Orku. Stærsta verkefnið er ekki nefnt í fréttatilkynningunni, en það er Hvalárvirkjun á Ströndum.

  Hin Kremlarlógíska niðurstaða er þessi: Hvalárvirkjun er ekki aðeins mjög umdeild meðal náttúruverndarsinna, heldur bendir allt til þess að HS Orku hafi yfirsést margskonar tæknilegar og lagalegar hindranir sem líklegar eru til að koma í veg fyrir Hvalárvirkjun. Þessa framkvæmd hefur Ásgeir keyrt fram af miklum krafti og skrifast klúðrið á endanum á hann sem forstjóra fyrirtækisins. Fyrir það fær hann að fjúka og væntanlega mun ekki líða á löngu þar til HS Orka tilkynnir að hætt hafi verið við verkefnið. Þær hindranir sem blasa við framkvæmdinni eru svo tröllvaxnar að erfitt er að sjá hvernig verjandi er fyrir HS Orku að halda áfram með hana.

  Auglýsing