“SVO HLÓ HANN DÁTT OG LENGI” – MINNING

    “Fregn af andláti Jóns Sigurbjörnssonar leikara varð til að rifja upp kynni mín af þessum ógleymanlega karakter og ljúfmenni,” segir Atli Rúnar Halldórsson rithöfundur, útgefandi og blaðamaður. “Hann var kominn á Hrafnistu í Reykjavík þegar ég kvaddi dyra til að fá hann til að rifja upp vinnuna við kvikmyndina Land og syni sem aðallega var tekin upp í Svarfaðardal sumarið og haustið 1979.

    Atli Rúnar og Jón skoða bókina Svardælasýsl.

    Það var nú meira en sjálfsagt og Jón talaði svo fallega um Dalinn og Svarfdælinga að mér datt ekki annað í hug en að taka því fagnandi þegar hann bað mig um að koma aftur til að spjalla. Ég heimsótti höfðingjann nokkrum sinnum og þær stundir gleymast ekki.

    Jón lék Tómas í Gilsbakkakoti á móti Sigríði Hafstað á Tjörn. Honum þótti mikið til Sigríðar koma og mér tókst að leiða „hjónin“ saman á nýjan leik á Hrafnistu í desember 2016 í tilefni af væntanlegri bók okkar systkina, Svarfdælasýsli, sem út kom 2017. Þvílíkir fagnaðarfundir og þau duttu um stund í karakter!

    Í annað skipti hóaði ég saman fleiri aðstandendum Lands og sona til að hitta Jón Sigurbjörnsson á Hrafnistu og þar var þá líka Friðrik Stefánsson hljóðmaður á Útvarpinu sem vann við Land og syni. Friðrik hafði áður tekið upp ótal útvarpsleikrit þar sem Jón var annað hvort leikari eða leikstjóri.

    Jón lék í um 30 kvikmyndum um dagana en sagði margoft að Land og synir væru sér kærust allra þeirra og meinti það!

    Í Landi og sonum fór hann í göngur með „sveitungum“ sínum og þurfti að súpa af fleygum og flöskum eins og gengur meðal gangnamanna. Í einu atriðinu mætti hann heim í hlað moldfullur á hestbaki og var borinn meðvitundarlítill inn í rúm:

    „Ég varð að læra að leika mig fullan því aldrei hef ég bragðað vín um dagana. Þeir voru mér hins vegar betri en engir að leiðbeina mér með ölvunarástandið, svarfdælskir sveitungar þínir, greinilega vanir menn með fleygana!“

    Svo hló hann dátt og lengi.

    Jón Sigurbjörnsson minntist oft á Hjálmar Júlíusson – Bomma: „fæddur leikari“. Hann nefndi líka atriði sem ekki var í handriti en spunnið á staðnum, tekið upp og haft með í kvikmyndinni. Það var þegar Helgi Indriða gekk fram á dauða kind í snjó í göngunum.

    „Þetta lék hann eins og þaulæft hefði verið. Vel gert!” mælti stórleikarinn um frammistöðu rafvirkjameistarans á Dalvík.

    Daginn sem bókin Svarfdælasýsl kom út fékk ég Hauk Sigvalda með mér á Hrafnistu til að afhenda Jóni Sigurbjörnssyni eintak. Hann tók við gjöfinni fagnandi en með því skilyrði að ég kæmi aftur og læsi upp úr henni fyrir sig. Það gerði ég að sjálfsögðu.

    Fundum okkar bar síðast saman í samkomusalnum á Hrafnistu þegar ég var fenginn eitt sinn til að spjalla þar á aðventu um jólahald í Svarfaðardal. Þá sat Jón Sigurbjörns á fremsta bekk og hlustaði með bros á vör. Sú mynd af honum er skýr, sterk og afar notaleg í minningunni.”

    Auglýsing