SÚSANNA TÆTIR THE IRISHMAN Í SIG

  Súsanna Svavarsdóttir, einn helsti leiklistargagnrýnandi þjóðarinnar fyrir daga Jóns Viðars í faginu, tætir stórmyndina The Irishman í sig en hún er af flestum talin ein sú merkasta á síðri árum – sjá hér. Súsanna segir:

  “Alveg stórmerkilegt hvað er hægt er að markaðssetja hundvonda hluti sem eitthvert masterpís. Frú Grand fór að horfa á hina rómuðu nýju seríu The Irishman – og maður lifandi, þetta var eins og að horfa á leikna skýrslu – og ekki af skemmtilegra taginu… Ekkert að gerast, bara einhverjir karlar að tala og tala og tala… allar helstu leikarakanónur Ameríku 20. aldar (jökulgamlir og stirðir karlar) dubbaðar upp til að fremja leiklist en mistekst það hrapallega. Það er hreyft sig stórt og talað hátt (nema DeNiro sem muldrar að vanda með allt annan hreim sem sögumaður en sem persónan sem hann leikur sem á þó að vera ein og sama persónan) og maður er stöðugt gáttaður á því að Al Pacino haldist inni í myndrammanum eins og slátturinn er á honum. (Reyndar er það eina afrekið sem unnið er í öllum þessum klukkutímum af drepleiðindum sem segir manni að líklega sé tökumaðurinn helvíti fær). Pacino er stöðugt að endurtaka atriði Michaels Corleone úr Godfather III þar sem hann býsnast yfir því við Connie systur sína að hann sé alltaf að reyna að komast útúr mafíósaklíkunni en sé jafnharðan dreginn inn aftur – nema – þetta mörgum árum seinna er hann orðinn svo mikill stórleikari að hann sprengir alla skala í raddbeitingu, svipbrigðum (þessum fimm sem hann hefur notað frá upphafi) og hreyfingum, með bótox í efri vörinni alveg upp að nefi. Það er virkilega leikið stórt. Frú Grand hefur ekki séð það stærra. Niðurstaðan hjá frú Grand var að það væri meira gaman að horfa á ljósmyndir af rúnum rista meðlimi Rolling Stones ef maður þyrfti endilega að vera að horfa á veröld sem var.”

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinSAGT ER…
  Næsta greinSAGT ER…