SUNNLENSKIR ALÞÝÐUMENN 1905

    “Eyrarbakki 1905. Mannfjöldi við Háeyrarverslun. Uppboð eftir að franska skútan Pierre Loti strandaði við bæinn Gamla Hraun 1905,” segir Ingibjörg Helgadóttir og birtir þessa mynd á vefnum Gamlar ljósmyndir:

    Fróðleg umfjöllun Ingu Láru Baldvinsdóttur um þessa mögnuðu mynd birtist í Ljósmynd mánaðarins janúar 2013, Þjóðminjasafni Íslands. Þar segir m.a:

    “Á annað hundrað manna, mest karlar, hafa safnast saman í hóp til að fylgjast með einhverju sem myndin hvorki sýnir okkur né gefur til kynna hvað er. Mennirnir eru allir með höfuðföt, flestir með hatta, nokkrir með kaskeiti, rússahúfur eða sjóhatta, og fáeinir með derhúfur. Aðeins þrjár konur hafa blandað sér í hópinn, aðrar standa utan við hann. Í bakgrunni eru menn í litlum hópum undir sjógarði eða húsvegg og í sjógarðshliði, og nokkrir hestar í grjóthlöðnu gerði.

    Ljósmyndarinn hefur stillt sér upp til hliðar við það sem er um að vera. Eitt augnablik hafa ljósmyndavélin og ljósmyndarinn fangað athygli manna: Fólk horfir í átt að vélinni eða skáskýtur augunum á hana, ljósmyndarinn smellir af og við það myndast fágætt augnsamband við stóran hóp fólks fyrir rúmri öld.

    Fyrir um hálfri öld var þessi litla mynd (8×11 cm) stækkuð upp til að bera betur kennsl á mennina í hópnum. Þá var enn uppi fólk sem þekkti andlit þeirra og lét sig það varða. Dæmi voru þess að ekki hefði verið tekin önnur mynd af sumum þeirra. Nöfn mannanna eru orðin fjarlægari en mynd þeirra orðin að táknmynd fyrir sunnlenska alþýðumenn. Augnaráð þeirra gerir þessa ljósmynd Magnúsar Gíslasonar að einni af sterkustu myndum frá byrjun 20. aldar.”

    Auglýsing