STÓRÆTTAÐUR UPPLÝSINGAFULLTRÚI

  Lára Björg Björnsdóttir hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og mælist ráðning vel fyrir, þykir nýbreytni þar sem starfinu hafa hingað til gegnt miðaldra, karlkyns blaðamenn.

  Lára Björg er barnabarnabarn athafnamannsins Eggerts Claessen sem bjó á Reynisstað í Skerjafirði en Kristín, amma Láru Bjargar, er dóttir Eggerts. Afi Láru Bjargar og maður Kristínar, Guðmundur Benediktsson, var svo lengi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu þangað sem Lára Björg er nú komin sjálf.

  Guðmundur Magnússon hefur skrifað bók um Eggert Claessen sem gerir það gott í jólabókaflóðinu og er lýst þannig:

  “Eggert Claessen (1877–1950) var einhver mesti áhrifamaður á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar. Hann var náinn samstarfsmaður og ráðgjafi frænda síns Hannesar Hafstein og mágs síns Jóns Þorlákssonar, viðskiptafélagi Thors Jensen og Sturlubræðra, og lögfræðingur Einars Benediktssonar. Hann var einn helsti frumkvöðull Eimskipafélagsins, tók þátt í hinu sögufræga Milljónarfélagi og var lykilmaður í fossafélaginu Titan. Þá var hann bankastjóri Íslandsbanka eldri í tæpan áratug. Sem framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins var hann andlit atvinnurekenda um árabil. Eggert var mikils metinn af samverkamönnum fyrir greind og dugnað en andstæðingar hans sáu hann sem „fjandmann fólksins“ og „höfuðpaur auðvaldsins“.

  Sagan sem sögð er í þessari bók byggist á umfangsmikilli rannsókn áður óþekktra frumheimilda um störf hans og litríka ævi þar sem skiptast á skin og skúrir, gleði og harmar, hamingja og mótlæti. Öllum steinum í sögu Eggerts er velt við og margt nýtt og óvænt leitt í ljós um hann og samtíð hans.”

  Auglýsing