STÓRA BJÓRBULLIÐ

  Í nóvember árið 1990 stóð ég fyrir opnun skemmtistaðar í Borgarkringlunni sem hét AMMA LÚ sem nefndur var í höfuðið á ömmu minni Lovísu Guðrúnu Jakobínu Ágústsdóttir Fjeldsted. Þar var engu til sparað og gekk reksturinn fádæma vel. Ég seldi staðinn eftir 4 ár en þau viðskipti gengu til baka seinnipart ársins 1996.

  Það er frasi sem segir “Never go back to the scene of the crime”. Með öðrum orðum, ekki snúa til baka, sleppa tökunum. En ég lét ekki segjast af tilfinningalegum ástæðum og tók staðinn til baka og ákvað að breyta um rekstrarfyrirkomulag.

  Ég gerði heilmiklar breytingar og setti meðal annars upp mini brugghús. Þetta var það fyrsta hér á landi og kunni ég lítið til verka á þessum vettvangi. Staðurinn opnaði undir nafninu “Hinn íslenski bjórkjallari”. Sannaðist þar máltækið góða: Þeir njóta sjaldnast eldanna sem fyrstir kveikja þá. Ég tók á mig skellinn og lokaði eftir nokkra mánuði, reynslunni ríkari og einhverjum krónum fátækari. Það þýðir lítið að gráta Björn bónda svo ég hélt áfram því sem ég var að gera á þeim tíma sem gekk bara prýðilega. Hótel Borg, Hard Rock Cafe, Kaffibrennslan og Skuggabar. En svona er lífið. You win some and you loose some.

  Nú er öldin önnur. Það hafa risið hingað og þangað um landið fyrirmyndar mini/micro brugghús sem framleiða allskyn tegundir af bjór sem mér er sagt að sé bara nokkuð góður og sumir hverjir fluttir út. Áfengis og tóbaksverzlun ríkisins sér sér ekki fært að hafa til sölu allar þær tegundir sem framleiddar eru sem er ósanngjarnt fyrst það er á annað borð búið að leyfa þessa starfssemi.

  Nú liggur fyrir á Alþingi frumvarp um að leyfa þessum brugghúsum að selja til hins almenna neytanda bjór í flöskum og dósum. En þá koma upp raddir sem mæla gegn þesskonar leyfi á þeirri forsendu að það auki áfengisneyslu. Og fyrir liggur að koma með höft og takmarkanir varðandi magn og afgreiðsludaga þar sem kirkjunni og einhverjum þjóhátiðardögum er blandað inní. Bara til að friða þá sem halda þetta auki alkahólneyslu í landinum sem er rangt.

  Það er enginn skilningur eins slæmur og misskilningur.

  Ég verð að viðurkenna að þessi rök skil ég ekki. Sjálfur hefi ég ekki smakkað dropa í yfir 40 ár en hefi fylgst vel með þróun mála. Mér er í fersku minni þegar bjórinn var leyfður 1. marz, 1989. Átti fyrst að vera til reynslu og einhverjar takmarkanir lágu í loftinu. Fyrstu árin voru ekki nema um og 40 mismundandi tegundir á boðstólum, í flöskum aðallega.

  Sé ekki að bjórsala hafi skaðað þjóðina meir en aðrar þjóðir.

  En aftur að alvöru málsins. Fyrst það er á annað borð búið að leyfa þessa starfssemi þá má ekki búa svo um hnútana að þessi fyrirtæki geti ekki þrifist vegna ósanngjarnra hafta. Ekki misskilja mig, ég er ekki að hvetja til áfengisneyzlu, en að fenginni reynslu þá er ég sannfærður um að bezta leiðin til að draga úr henni eru almennar kröftugar forvarnir og gott aðgengi að meðferð fyrir þá sem þurfa á slíku að halda.

  Auglýsing