STÓR STUND Í PARÍS

Josephine Baker og Fanny Ingvars.

“Sögulegur atburður mun eiga sér stað síðdegis í dag í París, þegar Joséphine Baker dansari, söngvari, baráttukona gegn kynþáttafordómum og síðast en ekki síst virkur meðlimur í frönsku andspyrnuhreyfingunni í síðari heimsstyrjöldinni, mun fá táknræna hinstu hvíld í le Panthéon meðal bestu dætra og sona Frakklands,” segir Fanny Ingvarsdóttir frönskukennari í MS um langt skeið og heldur áfram:

“Pólitískt útspil Emmanuel Macron, vissulega. Segir sagan að nú muni charleston-dans, la conga og amerískur jazz hefja innreið sína í þessa frægu byggingu! Joséphine Baker verður fyrsti listamaðurinn og sjötta konan sem fær þennan virðingarsess. Dagsetningin er ekki tilviljun, en þennan dag árið 1937 gekk hún í þriðja sinn í hjónaband og fékk við það franskan ríkisborgararétt. Frá kastala sínum í Dordogne-héraði hóf hún mannréttindastarf sitt og í þeirri vissu að hægt væri að búa saman í sátt hvað sem trú og heimshornum liði, ættleiddi hún ásamt fjórða eiginmanni sínum tólf munaðarlaus börn af mismunandi uppruna. Ég hef heyrt viðtöl við alla vega þrjú af börnum hennar þessa dagana og stolt þeirra er mikið fyrir hennar hönd. Þau segja að hún hefði afþakkað fyrst, en staðfesta hlýjan hug hennar til Frakklands, – fæðingarland hennar hefði hins vegar vakið með henni ótta. Hvernig tókst henni að launa hinar góðu móttökur og nýfengið frelsi? Hún gekk í flugherinn m.a. og söng á vígstöðunum fyrir hrjáða hermenn. Með alþjóðlegri frægð sinni tókst henni að láta bjóða sér í helstu samkvæmi Parísar meðal áhrifafólks sem hafði upplýsingar sem fóru leynt en voru lykilþættir í því að verjast innrásarher Þjóðverja. Í kastalanum geymdi hún jafnvel vopn og leyniskjöl. Fyrirætlanir Hitlers og Mussolínis lágu gjarnan til hennar. Nótnablöð voru notuð til að koma upplýsingum á framfæri og hún gekk svo langt að nota brjóstahaldarana fyrir hið allra mikilvægasta.

“Hvernig slapp hún við að vera staðin að verki? Kannski vegna þess að hún var fræg fyrir að dansa nær nakin og það voru greinilega ekki margir kandidatar í veislunum til að fara að þreifa á þeirri sem sýndi allt. Eða hvað? -Joséphine Baker fæddist í Saint-Louis í Missouri í Bandaríkjunum 3. júní árið 1906 og lést 12. apríl 1975 í París. Lífi hennar hefur verið gerð skil í söngleik sem ég reyndar sá á sínum tíma í Montpellier og viðtöl við hana sýna hve hún var mikill húmoristi, mannvinur, talaði mikið, enda leikkona og með svör á reiðum höndum um flest. Hún var óþreytandi að minnast á athafnafrelsið sem hún upplifði í Frakklandi árið 1925 og var á sviði til 1968. Nú er komið að Frakklandi að endurgjalda henni vinnu í þágu landsins á stríðstímum og þá ánægju sem hún veitti með sviðslist sinni.”

Auglýsing