STJÓRNARSKRÁ HORNSTEINN EKKI BLÆVÆNGUR

  "Auðlindin okkar" heitir þessi mynd Steina pípara.

  Krafan um nýja stjórnarskrá kom upp eftir fjármálahrunið 2008. Hún byggðist á auknu vantrausti á stjórnvöldum. Nú liggja fyrir drög að nýrri stjórnarskrá. Um sögu þeirra og kosningu um þau þyrfti sjálfstæðan pistil.

  Sá hluti sem snýr að breytingum á stjórnskipun felur ekki í sér neina byltingu. Mikilvægasta ákvæðið til að koma á móts við kröfu fólks er ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og heimild um að  þjóðin geti lagt fram frumvörp og fái að kjósa um þau. Það er mikilvægt þegar kreppir að að fólki finnist það ekki máttvana gagnvart stjórnvöldum. Ég held einmitt að þau ákvæði svari kalli fólks eftir nýrri stjórnarskrá.

  Steini pípari

  Náttúruverndarákvæði í tillögunum eru hins vegar óskiljanleg og gefa dómstólum vald til að ákveða hvað þau þýða. Það er að mínu mati óásættanlegt. Við getum ekki bundið framtíðar kynslóðir þannig. Það er hægt að hafa almennt ákvæði um náttúruvernd ef mönnum sýnist svo en segja svo eins og í mörgum ákvæðum stjórnarskrárinnar að nánar verði kveðið á um náttúruvernd í lögum. Orðalag greinarinnar er til þess fallið að skapa mikla sundrung en þjóðin á að sameinast um stjórnarskrá. Hún á að vera ákveðinn hornsteinn sem ekki er breytt frá degi til dags. Þess vegna verður að vera víðtæk sátt um hana.

  Þetta finnst mér alvarlegast fyrirstaðan fyrir samþykkt draganna. Ég hef fleira smálegt sem varpa má fram til umræðu og kem e.t.v. með það síðar.

  Auglýsing