STJÁNI 88 HÆTTIR EFTIR 56 ÁR HJÁ STRÆTÓ

  Forstjóri Strætó kveður Stjána með blómvendi eftir 56 ár í starfi.

  Í gær urðu þau tímamót Kristján H. Kjartansson, eða Stjáni 88 eins og hann er alltaf kallaður, var kvaddur af samstarfsfólki sínu hjá Strætó eftir 56 ára farsælan starfsferil. Hann hóf störf 1. maí 1967 og er því með starfsaldur sem ekki margir státa af nú í dag.

  “Það er nú erfið spurning,” segir Stjáni aðspurður hvað standi upp úr eftir 56 ár hjá Strætó. Það hafi orðið helvíti miklar breytingar á þessum tíma en það besta við Strætó hafi verið hversus gott var að vinna þar.

  Hann byrjaði fjórtán ára gamall í innanþvotti fyrstu tvö árin. Tók svo næturvaktir í fjögur ár og byrjaði síðan að keyra strætisvagna. Hann gegndi þó mörgum ólíkum hlutverkum í gegnum tíðina en það sem stendur upp úr var þegar Stjáni varð sendiherra:

  “Ég veit nú ekki hvaðan þetta nafn er komið en sendiherra sá um að skipta út biluðum bílum og setja rétta bíla inn á leiðir.”

  Með reynslu sína og þekkingu var oft leitað í viskubrunn Stjána og tók hann öllum beiðnum fagnandi. Það var sagt að hann hefði fæðst strætómegin í lífinu, alltaf viljað vinna að hagsmunum farþega og velferð Strætó.

  Spurður hvað taki við eftir starfslokin svarar Stjáni að hann hafi nú ekki hugsað svo langt en hann hafi nægan tíma til að hugsa um það og njóta lífsins í leiðinni.

  Auglýsing