STEINUNN ÓLÍNA SNÝR AFTUR

  Laugardaginn 13. janúar næstkomandi frumsýnir Þjóðleikhúsið Efa – dæmisögu eftir John Patrick Shanley í leikstjórn Stefáns Baldurssonar. Með leikhlutverk fara Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir.

  Steinunn Ólína var um árabil ein helsta leikkona Þjóðleikhússins, en hún dró sig í hlé frá leiksviðinu fyrir þrettán árum, og stígur nú á svið í fyrsta sinn síðan þá. Efi er fyrsta verkefni Sólveigar Guðmundsdóttur í Þjóðleikhúsinu en hún hlaut Grímuverðlaunin sem leikkona ársins á liðnu vori.

  Hvenær lætur fólk tortryggni stjórna sér? Hvenær lokar það augunum fyrir óhugnanlegum sannleika?

  Efi – dæmisaga er margverðlaunað og spennandi verk um mörkin í mannlegum samskiptum, tortryggni, grunsemdir og nístandi óvissu.

  Skólastýra í kaþólskum barnaskóla í New York leggur áherslu á aga og strangleika. Öll viðleitni í átt til nútímalegra skólastarfs er henni á móti skapi. Dag einn tjáir hún ungri kennslukonu að sig gruni að prestur í kennarahópnum eigi í óeðlilegum samskiptum við einn af skólapiltunum. Kennarinn neitar öllum ásökunum, en getur hann sannað að hann hafi hreinan skjöld?

  Leikritið Efi – dæmisaga sló í gegn þegar það var frumsýnt í New York árið 2004 og hefur verið sett upp við miklar vinsældir víða um heim. Verkið hlaut Pulitzer-verðlaunin, Tony-verðlaunin, Drama Desk-verðlaunin, New York Drama Critic´s Circle-verðlaunin og Obie-verðlaunin sem besta leikrit ársins. Kvikmynd byggð á leikritinu var tilnefnd til fjölda Óskarsverðlauna.

  Auglýsing