STAÐARHALDARI ÓGNAR STEINA PÍPARA

  Steini pípari sendir myndskeyti:
  Þann 15. ágúst sl. fór ég ásamt tveimur góðum mönnum  í ljósmyndatúr og var ákveðin óvissa hvert við færum. Við fórum austur fyrir fjall og ákváðum að ræða saman um framhaldið á bílastæðinu sunnan við Seljalandsfoss. Þegar þangað var komið sáum við að veðurútlitið inn í Þórsmörk lofaði meiru en sunnan við Mýrdalsjökulinn. Þangað héldum við yfir árnar, fram hjá Básum Goðalandi og leituðum þar að stað þar sem við gætum snætt hádegisverð við aðstæður sem hæfðu (h)eldri mönnum.
  Eftir hádegisverðinn og ljósmyndatöku af fjöllunum í kring bæði með hefðbundnum myndavélum og dróna kemur askvaðandi maður sem sagði að drónaflug sé ólöglegt samkvæmt persónuverndarlögum. Við leiðréttum manninn og gerðum góðlátlegt grín af þessu eins og framkoma hans gaf tilefni til. Ég benti honum á að ég ætti ekki auðvelt með gang. Þess vegna notaði ég dróna til að ná góðum myndum. Þá sagði hann að við ættum að greiða aðstöðugjald fyrir að hafa sest á fúinn bekk sem þar var. Við bentum honum á að ekkert hefði sagt frá slíkri gjaldtöku. Féll hann þá frá því með þeim orðum að hann mismunaði aðilum eftir hverjir þeir væru Það væru helst útlendingar og þeir sem kæmu í skipulögðum ferðum sem ættu að greiða fyrir að setjast á bekkinn.  Þá sagði hann að hann réði þarna öllu af því hann væri staðarhaldari og það gætu verið þarna allsberar konur í sólbaði. Það var svona álíka vitlaust eins og annað sem maðurinn sagði og við bentum honum á það að menn þyrftu ekki annað en farsíma til að taka myndir.
  Þegar við höfðum ítrekað leiðrétt rangfærslur mannsins bætti hann við niðrandi ummælum um svona gamla menn eins og okkur. Það væru einu mennirnir sem hlýddu honum ekki og mótmæltu vitleysum sem hann héldi fram. Hann hafði ekki eingöngu hræðilega misskilið hlutverk sitt heldur hafði aldurstengda fordóma sem hann sem andlit almenningsfélagsins Útivistar ætti alls ekki að láta í ljós. Nei enn þá er fordómar gagnvart okkur sem höfum nægilega þroska til að láta ekki menn sem líta of stórt á sig vaða yfir okkur. Það skal tekið fram að staðurinn er í þjóðlendu og Útivist hefur líklega verið gefin heimild að koma þar upp aðstöðu en ekki veitt algjör yfirráð yfir svæðinu eins og þessi maður var að telja okkur trú um enda væri það ólöglegt. Þar sem mér leið mjög illa við niðrandi ummæli um mig vegna aldurs þá skil ég betur þá sem verða fyrir niðrandi ummælum, vegna kyns, litarháttar, kynhneigðar og annars slíks.
  Það skal tekið fram að ég hef notað drónan þar sem það er raunverulega bannað þ.e. í Þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þar kom þjóðgarðsvörðurinn að mér og sagði mér kurteislega frá banninu og ég ætti ekki að endurtaka þetta. Það eru ekki allir sem ofmetnast vegna stöðu sinnar.
  Auglýsing