SÖLUHÆSTA COSTCO VERSLUN HEIMS?

  Úr viðskiptalífinu:

  Margt bendir til að verslun Costco hér á landi gæti verið sú söluhæsta í öllum heiminum. Kæmi svosem ekki á óvart, Íslendingar eru vanir því að borga meira en allir aðrir fyrir sömu vöruna.

  Costco rekur 741 verslun, flestar í Norður-Ameríku. Meðalsala allra Costco verslana var 163 milljónir dollara í fyrra, eða sem svarar 18 milljörðum króna á gengi dagsins. Það gerir um 50 milljónir króna á dag.

  En Costco í Kauptúni seldi fyrir 90 milljónir króna á dag fyrstu mánuðina eftir að verslunin opnaði í fyrra samkvæmt ársreikningi. Það er 80% meira en að meðaltali. Að vísu ber þess að gæta að það ríkti mikið Costco æði eftir að verslunin opnaði. Slegist var um innkaupakerrur. Núna eru fleiri slíkar lausar hverju sinni en eru í notkun. Æðið hefur runnið af landanum.

  Aftur á móti eru flestir sammála um að vöruverð í Costco hafi hækkað töluvert frá því að verslunin opnaði í fyrra (og meðalveltan var 90 milljónir á dag). Minni viðskipti hafa því ekki endilega minnkað veltuna vegna þess að vöruverðið er einfaldlega hærra.

  Jafnvel þó að Costco í Garðabæ selji ekki fyrir 90 milljónir á dag, þá er líklegt að verslunin sé enn meðal þeirra söluhæstu í keðjunni, eða jafnvel sú söluhæsta. Það kemur í ljós þegar næsti ársreikningur Costco birtist.

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinSAGT ER…
  Næsta greinSAGT ER…