SMÁRI (60) OG BOND (53) – ALDURSGREINING

  “Ég gleymdi einu”, segir sósíalistaforinginn Gunnar Smári sem er þó minnugur um flest:

  “Ég sá nýju Bond-myndina og hún gekk eiginlega frá mér, þetta var eins og að horfa á fólk reyna að kreista vatn úr steini. Það er ekkert eftir í þessari sögu eða persónum, ekkert sem er ekki löngu lekið burt og gufað upp.

  Af leiðindum mínum velti ég fyrir mér hvað Daniel Craig væri gamall þegar myndin var tekin upp. Hann var 51 árs. Ári yngri en Roger Moore var þegar For Your Eyes Only var tekin upp. Sir Moore átti eftir að gera tvær myndir í viðbót, Octopussy og A View to a Kill, sem var tekin upp þegar hann var 57 ára.

  Sean Connery var 31 árs þegar tökur á Dr. No byrjuðu í ársbyrjun 1962 og lék svo James Bond í fimm myndum í striklotu þar til hann var orðinn 36 ára, níu árum yngri en þegar Roger Moore byrjaði að leika þessa persónu sex árum síðar. En þarna á sjöunda áratugnum þótt 36 ár full gamalt og hinn þrítugi George Lazenby var ráðinn. Hann þótti ekki virka og Connery var fenginn til að leika Bond aftur, varð fertugur meðan á tökum stóð. Connery lék Bond reyndar enn einu sinni, var 52 ára við tökur á Never Say Never Again árið 1983.

  Annars voru þeir Timothy Dalton og Pierce Brosnan 41 árs þegar tökur hófust á þeirra fyrstu mynd en Daniel Craig varð 38 ára við tökur á sinni fyrstu mynd.

  Hvað segir þetta okkur? Ekki neitt. Kannski að ef George Lazenby hefði fest sig í sessi og Sean Connery ekki verið sóttur aftur; þá væri James Bond kannski yngri í dag. Fyrst bætti Bond við sig tíu árum hjá Sean Connery og svo öðrum tíu í meðförum Roger Moore og rúmlega það.

  Léa Seydoux, sem leikur ástkonu Bond og barnsmóðir í No Time to Die, varð 34 ára við tökurnar. Aldursmunurinn er 17 ár, sem þykir nokkuð mikill, jafnvel á mælikvarða Bond-mynda. Fimm sinnum hefur aldursmunurinn á milli Bond og Bond-stúlkunnar verið meira, mestur í For Your Eyes Only þar sem Roger Moore var 53 ára en Carol Bouquet 24 ára sem Melina Havelock. Í fjórum myndum hefur aldursmunurinn verið 17 ár, en í átján myndum minni. Aðeins einu sinni hefur Bond-stúlkan verið eldri en Bond, það var í Goldfinger þar sem Honor Blackman var 39 ára þegar hún lék Pussy Galore á meðan Sean Connery var 34 ára sem James Bond.

  Ef ykkur finnst þetta óáhugavert þá ættuð þið að prufa að horfa á nýju Bond-myndina. Hún er leiðinlegri en þetta.”

  Auglýsing