SKÍTAFRÉTT DAGSINS FRÁ SVÍÞJÓÐ

  Skitadjobb.

  Víðförull fréttaritari

  Stundum er sagt að það sé skítalykt af ákveðnum fréttum, en þessi frá Svíþjóð stendur fyllilega undir því.

  Átta tonn af mannaskít runnu út um afturhlera flutningabíls á þjóðvegi 118 skammt frá Åhus á austurströnd Svíþjóðar, nálægt Kristianstad. Hlerinn opnaðist af einhverjum orsökum og innihaldið leitaði samstundis út og dreifðist eftir veginum.

  Lögreglan lokaði veginum úr báðum áttum og starfsmenn flutningafyrirtækisins mættu á staðinn til að moka farminum aftur upp á bílinn.

  Ekki var talin sérstök hætta í næsta nágrenni, en lögreglumaðurinn Daníel Olsson sagði þó við sænska útvarpið að betra væri að vera ekki með puttana í gumsinu.

  Slatti af innihaldi flutningabílsins slettist á hús við veginn og verður það sótthreinsað vel og rækilega.

  Skíturinn slettist á hús.
  Auglýsing