SKIPULÖGÐ GLÆPASTARFSEMI

  Í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu á sunnudaginn var rætt við Höllu Bergþóru lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Þar er rétt kona á réttum stað. Hún er flott, yfirveguð, málefnaleg, eins og sagt er “no nonsens” og mjög trúverðug í framkomu.

  Undanfarnar vikur hefur mikið verið rætt um svokallað Rauðagerðismál og skipulagða glæpastarfssemi. Eins og fram kom í máli Höllu þá er búið að kortleggja allt að 15 skipulagða hópa sem stunda ólögleg viðskipti og framkomu. Þessi glæpastarfsemi skilar oft óhemju miklum “gróða” sem viðkomandi vilja svo koma yfir í löglega starfsemi til að þvo peningana (peningaþvætti) til þess að geta útskýrt óhóflegan lífstíl sinn, glæsivillur, rándýra bíla, flottar veislur. o.s.frv.

  Víðir, hinn viðkunnanlegi lögreglumaður sem er orðinn heimlisvinur þjóðarinnar, segir oft: “Við erum almannavarnir”.

  Nú kemur the moral of the story:

  Ef það er kaupandi þá er einhver tilbúinn að skaffa. Bróðurpartur ólöglegu starfseminnar er sala á vímuefnum, bæði ólöglega innfluttum, heimaræktuðu og eins læknadópi. Eins er svokallað mansal þegar flutt er til landsins ódýrt vinnuafl sem er látið að vinna fyrir launum sem eru langt undir almennum launatöxtum svo ég tali nú ekki um vændi.

  Og hver er svo kaupandinn? Það erum “við”. Ósköp venjulegt fólk sem reykir gras, tekur í nefið allskonar og notar alsælupillur af ýmsum gerðum.

  Það að reykja gras, sem oft er byrjunin á neyzlunni, þykir sjálfsagt í dag en gerir fólk sér grein fyrir því að það er að fóðra skipulagða glæpastarfesemi innlenda og erlenda? Eins þeir sem eru tilbúnir að fá ódýran iðnaðarmann eða verkamann til að framkvæma allskonar.

  Einu sinni á nítjándu öld hélt maður einn í London ræðu þar sem hann hélt því fram að það væri ekkert mál að hreinsa borgina á einum sólahring en á þeim tíma voru hestvagnar aðal samgöngutækið og hestaskítur út um allt. Þannig að þegar fólk kváði við þá sagði hann: “Það er ósköp einfalt. Hver og einn hreinsar sinn garð og götupart.”

  Eins segi ég, ef við hættum að verzla við bófana þá hverfa þeir. Því miður er nú lífið ekki svona. Það sem er einfalt í teóríu er oftast óframkvæmanlegt í raun.

  Áfram veginn!

  Auglýsing