SKEIT Í GJÓTU – SEÐLAVESKIÐ FÓR MEÐ

    Jóhanna segir sögu af seðlaveski.

    “Mér er alltaf mjög minnisstætt þegar ég var á ferðalagi með foreldrum mínum sem krakki fyrir rúmum 30 árum, nánari tiltekið á Snæfellsnesi,” segir Jóhanna Engelhartsdóttir lífeindafræðingur:

    “Í þá daga voru ekki klósett á hverju strái fyrir ferðalanga. Pabbi minn sem var öllu vanur, enda ferðaðist hann um landið þvert og endilangt, vildi helst vera þar sem engin aðstaða var. Þarna á Snæfellsnesi þurfti hann að létta á sér, arkar af stað í leit að álitlegum stað með klósettrúllu í hönd. Við vitum ekki ekki fyrr en karlinn kemur til baka þónokkru seinna eldrauður og mikið niðri fyrir leitandi að einhverju sem gæti hjálpað sér. Hann hafði sem sagt fundið þessa fínu sprungu til að skíta í, djúpa og góða, nema hvað seðlaveskið sem var alltaf geymt í rassvasanum endaði ofaní sprungunni á eftir úrgangnum og það var ekki um neitt annað að ræða en ná því upp aftur, þarna voru menn með reiðufé og hálft heimilisbókhaldið í veskinu.  Til að gera langa sögu stutta þá náðist veskið upp úr sprungunni, illa lyktandi og pabba var alls ekki skemmt en okkur dætrunum fannst þetta hin mesta skemmtun og lifum enn á þessari minningu.”

    Auglýsing