SKAMMIST YKKAR – LÁTUM ÞJÓÐINA RÁÐA EIGN SINNI

  Þessi mynd Steina pípara heitir Ferðafrelsi.

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Í fjölflokkakerfi eins og við búum við eru ríkisstjórnir samsettar úr mörgum flokkum. Þegar flokkar semja um stjórnarsamstarf setja smáflokkar eitthvað á oddinn sem nær fram að ganga en önnur sem stærri flokkar vilja verða að víkja. Þannig endurspeglar vilji ríkisstjórna ekki „þjóðarvilja“ þ.e. vilja meiri hluta kjósenda. Þeim finnst þeir vera sviknir. Þetta gengur meðan lítil átök eru í landinu og allt gengur vel. Í hruninu jókst vantrú á stjórnmálamönnum og ríkisstjórnum.

  Steini pípari

  Einhvern tíma kom hugtakið þjóðareign upp í umræðunni. Lögfræðingar sögðu að það væri ekki til og félli ekki inn í kerfið. Samt talaði þjóðin um þjóðareignir og þar við sat. Stjórnmálamennirnir hafa litið á að þjóðareign væri bara ríkiseign undir fallegra nafni vegna vantrúar fólks á ríkinu. En er þetta rétt? Var nafnabreytingin bara hjóm eitt? Ef hugtakið á að hafa einhverja merkingu eru þessar eignir teknar út fyrir sviga. Þær má ekki nota sem skiptimynt í stjórnarviðræðum eins og nú hefur verið gert.

  Það er engin ein stefna um hálendi Íslands sem allir geta sætt sig við. Hagsmunir ólíkra sérhagsmunahópa fara ekki saman. Það verður ekki leyst með því að gera 40% landsins að þjóðgarði sem stjórnað er eins og einræðisríki af einum hópnum til að þrengja möguleika hinna. Þjóðareignum verður ekki ráðstafað þannig nema það sé vilji meirihluta þjóðarinnar. Þeir sem berjast fyrir slíku setja í lögin fagurgala um samráð sem síðan vegur ekkert þegar á hólminn er komið. Ætlast er til að opinberar ákvarðanir séu teknar af málefnalegum ástæðum og sýnt meðalhóf. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur hvorugt sýnt. Núverandi umhverfisráðherra ætlar að stækka hann yfir allt hálendi Íslands – Ég segi bara skammist ykkar. Látum þjóðina ráða eign sinni.

  Auglýsing