SJÚKRATRYGGINGAR VELJA ERLENT FREKAR EN INNLENT

    Tómas og mjaðmaliðirnir.

    Tómas Lárusson fótgönguliði í Gráa hernum skrifar:

    Áfram út frá tilvitnunum í nýlega Morgunblaðsgrein sálufélaga míns um heilbrigðisráðherra
    og réttindi sjúkratryggðra:

    „Sjúklingum með slitgigt í hnjám og mjöðmum fjölgar stöðugt. Tugir íslenskra
    bæklunarlækna sinna því að úrskurða hversu slæm slitgigtin er, út frá röntgen- og
    segulómmyndum. Ýmist bjóða þeir sprautumeðferð við liðverkjum sjúklinganna, krukka í
    liðamótin, ávísa þeim sterk verkjalyf eða tilvísa á spelkur og senda í sjúkraþjálfun”,
    sjúkratryggðum nánast að kostnaðarlausu.

    „Þetta eru gildar og reyndar bráðabirgðaráðstafanir, en á endanum þarf að skipta um liðamótin. Rúmlega þúsund slitgigtarsjúklingar þurfa nú orðið að bíða sárþjáðir í tíu til tuttugu mánuði og sumir lengur eftir að fá nýja hnjá- eða mjaðmaliði”.

    Biðlistinn lengist stöðugt. Eftir 90 daga á biðlistanum getur sjúkratryggður sótt sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins og endurgreiða þá sjúkratryggingar kostnað af þjónustunni eins og um heilbrigðisþjónustu innan lands væri að ræða enda þjónustan samsvarandi þeirri þjónustu sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða hér á landi.

    Nú vill svo til að á Íslandi (eitt aðildarríkja EES-samningsins) er samsvarandi
    heilbrigðisþjónusta og slitgigtar sjúklingar geta sótt frítt í öðrum aðildarríkjum EES-
    samningsins. Þjónustan á Íslandi er rekin með sama sniði/eignarhaldsformi og þær
    skurðstofur sem sjúkratryggðir sækja til útlanda eftir 90 daga bið, en sjúkratryggingar
    endurgreiða ekki kostnað af samsvarandi innlendri liðskiptaþjónustu.

    Ætli tilgangur 23. gr. a, í lögum um sjúkratryggingar sé að hygla sérstaklega einkareknum
    erlendum heilbrigðisstofnunum?

    Auglýsing