SJÓMANNAMINNING INGU SÆLAND

  "Til minningar um elsku Helga bróðir minn, læt ég fylgja þessa fallegu mynd af honum sem tekin var skömmu fyrir dauða hans."

  “Einu sinni var ég barn eins og við öll. Það undarlega við það er að mér finnst alls ekki langt síðan. Minningarnar eru flöktandi en þegar ég var heima á Ólafsfirði að alast upp var pabbi á sjó. Ég man helst eftir honum á tryllunni sinni Félaganum eins og hann hét. Sjálfur hefur hann sagt mér frá Freymundi og þeim góðu vinum sem um tíma áttu litlu útgerðina með honum,” segir sjómannsdóttirinn Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í hugleiðingu á Sjómannadaginn.

  “Á þessum tíma voru hvorki boð né bönn. Pabbi mátti sigla litlu trillunni sinni hvenær sem honum sýndist. Dagurinn var langur hjá pabba sem kom örþreyttur heim af sjónum um kvöldmat. Þá búinn að landa aflanum sem hann fékk. Ég spurði alltaf hvað veiddirðu mikið í dag pabbi þrátt fyrir að hafa lítið vit á því. Ég man hvað hann var ofur-glaður þegar hann sagðist hafa fengið 1000 pund eða meira.

  Mamma stóð vaktina með barnahópinn og sá líka alltaf um að útbúa pabba á sjóinn. Vaknaði um miðja nótt og tók til kjarngott nestí í hvíta stóra trékassann hans. Ef vel viðraði var lagt í´ann fljótlega eftir miðnætti. Þegar Helgi bróðir hafði aldur til fór hann á sjóinn með pabba.

  Þannig týnist tíminn og nú er pabbi tæplega 93ja ára orðinn gamall, gleyminn og lúinn.

  Hafið er gjöfult og hafið er grimmt. Elsku hjartans bróðir minn elskaði hafið, hreinleikann og frelsið sem því fylgdi. En sjórinn svipti hann lífinu rétt rúmlega þrítugan. Eftir sátu ástvinir í sorgarsárum.”

  Auglýsing