SIRKUSINN UM BESSASTAÐI

  T. Beinn skrifar:

  Prófessor emeritus við Háskóla Íslands skrifar á Facebooksíðu sína að í þessum forsetakosningum sé lítið annað fyrir hugsandi fólk að gera en að skila auðu enda standi valið á milli Guðmundar Franklíns og Friðjóns Friðjónssonar auglýsingamanns sem rekur auglýsingastofuna KOM og er kominn á fullt að vinna að framboði Guðna.

  Það blasti við þegar Guðni poppaði upp í Kastljósþættinum um Panamaskjölin 3. apríl 2016 að eitthvað skrýtið var á seyði. Hann var þá lítt þekktur kennari úr HÍ og hafði ekki getið sér orð sem greinandi spillingar. Þrátt fyrir það var hann kallaður í fréttatímann til að tjá sig eftir þennan mikilvæga þátt um Panamaskjölin. Þar stóð hann hálf sjokkeraður og hafði lítið til málanna að leggja. Hann virtist hafa verið kallaður til í einhverjum allt öðrum tilgangi.

  Nokkru síðar var hann kominn með hátt í 60 prósent fylgi í skoðanakönnunum um hver yrði hlutskarpur í væntanlegum forsetakosningum. Hann var ekki kominn í framboð þegar hann kom í sjónvarpið til að tjá sig um Kastljósþáttinn fræga, átti lítið erindi þangað en var samt fenginn í sjónvarpið dag eftir dag næstu daga og þá til að tjá sig um hlutverk forseta eftir að hröð atburðarás varð á vettvangi stjórnmálanna. Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra 5. apríl. Einhverjir voru búnir að ákveða að koma Guðna Jóhannessyni í sæti forseta Íslands.

  Skömmu síðar tilkynnti Davíð Oddsson um framboð sitt til forseta í sunnudagsþætti á Bylgjunni, 7. maí. Athygli vakti að þegar Bjarni Benediktsson þá fjármálaráðherra og Davíð mættust þegar annar tók við af hinum í þættinum að fáleikar voru með fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokkins og þeim sem nú gegndi þeirri stöðu. Davíð virkaði hikandi í návist Bjarna, eins og hann væri að kanna hug hans og spurði hvernig honum litist á. Glöggur stjórnmálaskýrandi sagði þá að ljóst væri að Bjarni væri með annan frambjóðanda á sínum snærum, styddi ekki fyrrum formann flokksins og forsætisráðherra heldur mann úr Garðabænum sem hann væri í góðum kynnum við. Öflugar auglýsingamaskínur höfðu verið ræstar út. Frambjóðandi þóknanlegur formanni Sjálfstæðisflokksins var kjörinn Forseti Íslands í júní 2016.

  Guðni Jóhannesson hefur ekki og mun væntanlega ekki trufla á nokkurn hátt þau öfl er studdu hann til forseta. Þau öfl eru sterkustu fjármála- og stjórnamálaöfl landsins. Svo heppin eru þessi öfl að þau geta alltaf reitt sig á gamla góða ,,vinstra“ fólkið sem nú flæðir um víðan völl í baráttunni fyrir Guðna. „Ég kýs Guðna“ eða „Guðni er minn forseti“ segja einstaklingar sem eru ekki endilega í stuðningsmannahópi Sjálfstæðisflokks, fremur Samfylkingar, og fylla nú smábátahöfnina á Facebook eins og síldartorfa.

  Hjarðhegðun í íslenska smáþorpinu eru engin takmörk sett. Hið skondna er að sterkustu stoðir valdaafla samfélagsins eru úr hópi smáflokka í stjórnarandstöðu auk hinna svonefndu vinstri grænu. Flokka sem þykjast vera vinstra megin við miðju, frjálslynd öfl, jafnvel róttæk þegar best lætur en þola ekkert óvænt, engin mótframboð, engar aðrar skoðanir en þær sem eru í meginstraumnum. Fólk sem vill bara hafa hlutina nákvæmlega eins og þeir eru, stöðugt vaxandi ójöfnuð, samþjöppun valds og auðs.

  Ef þið eruð í vafa um hverJir þessir aðilar eru sem taka upp plássið í stjórnarandstöðu en veita ráðandi öflum ríkari stuðning en þau hafa innan sinna eigin vébanda kíkið þá á prófílmyndirnar þeirra á Facebook. ,,Ég styð Guðna“ stendur þar. Á ensku er talað um ,,conformista“ fólk sem er valdhlýðið og ekkert að þreyta sig með heilabrotum. Þetta er fólkið sem skreytti prófílmyndirnar sínar fyrir nokkrum vikum með ,,Ég hlýði Víði“.

  Auglýsing