SIGMUNDUR DAVÍÐ GETUR FARIÐ AÐ SOFA

  Bréf og landakort frá lesanda:

  Hefur enginn áttað sig á því í umræðunni um þriðja orkupakkann að Bretland er á leið úr Evrópusambandinu? Hræðslan við orkupakkann byggir á því að þá geti útlendir gróðapungar í skjóli ESB lagt hingað sæstreng frá Bretlandi og hækkað raforkuverð hvort sem okkur líkar betur eða verr. En með Brexit dettur það dautt niður.

  Sæstrengur þyrfti að liggja frá nyrsta hluta Bretlands – Skotlandi nánar til tekið, ef hann ætti að verða að veruleika. Hann yrði 1.000 km langur, lengsti og dýpsti sæstrengur í heimi. Það er á mörkunum að svo langur sæstrengur borgi sig. Við brotthvarf Bretlands úr ESB í október næstkomandi hefur orkupakki þrjú ekkert gildi gagnvart þessum nágrönnum okkar. Frá Bretlandi getur því enginn lagt sæstreng í skjóli fyrirmæla frá ESB.

  Einhver kynni að halda að þá gætu önnur ESB lönd heimtað að leggja sæstreng hingað til lands. Slíkur sæstrengur gæti aldrei staðið undir kostnaði, vegna þess hvað hann þyrfti að vera langur. Sem dæmi má nefna að hann yrði um 1.700 km til Hollands og um 1.800 km til Frakklands. Það er næstum tvöfalt lengra en til Skotlands. Ekki stoðar að leggja streng til Noregs, því þar þyrfti að fá afnot af dýrum lagnaleiðum Norðmanna til að koma rafmagninu á markað á meginlandi Evrópu.

  Sigmundur Davíð og hans menn í Miðflokknum og aðrir andstæðingar Evrópusambandsins geta því hér og nú hætt að þvarga um málið og farið heim að sofa.

  En svo er hitt, sem fáir virðast vilja nefna af ótta við sæstrengsgrýluna. Málið er auðvitað að sala á raforku til útlanda um sæstreng getur skilað þjóðinni gríðarmiklum og öruggum tekjum, yfir einni milljón króna á hvert mannsbarn á ári. Umræðan um að þá hækki rafmagnsreikningur heimilisins um kannski 5 þúsund krónur á mánuði er hlægileg í því samhengi. Auðvitað á að loka álverum og málmbræðslum hér á landi og selja raforkuna frekar til útlanda. Við getum grætt meira á því en Norðmenn á olíuvinnslunni. Álverið í Straumsvík er til sölu. Kaupum það til að loka því og selja rafmagnið – til Bretlands.

  Auglýsing