SÍÐASTA SUNDFERÐIN

  Sundlaugar lokuðu í Reykjavík klukkan 10 í gærkvöldi og opna ekki aftur í bráð.

  Í gær var nóg af lyklum og tómum skápum í Sundhöllinni við Barónsstíg og hefði mátt heyra saumnál detta. Innan úr innri klefum bergmálaði þó samtal tveggja eldri manna sem voru að klæða sig:

  “Þetta er ljóta ástandið,” sagði annar og þá hló hinn:

  “Ég er ekkert hræddur við þetta. Ég er orðinn svo gamall,” og hélt áfram að hlægja.

  Sjálf sundlaugin var eins og lygnt stöðuvatn. Enginn að synda og enginn að hoppa af stóra brettinu þó það væri opið. Baðvörður sat á bakkanum og horfði í djúpið.

  Í heita pottinum voru þrír og þögðu þar til kona rauf þögnina:

  “Hótelin eru farin að auglýsa herbergi fyrir fólk í sóttkví,” sagði hún og hinir tveir kinkuðu kolli.

  Svo fóru allir upp úr og klukkan sló sex.

  Auglýsing